Sigurlaug Sverrisdóttir er eigandi og framkvæmdastjóri ION Luxury Adventure Hótel sem er fjögurra stjörnu lúxushótel á Nesjavöllum sem var opnað snemma árs 2013. Sigurlaug hefur verið flugfreyja, skipulagt ævintýraferðir í Sviss, sett á laggirnar flugfreyjunám, tekið þátt í þríþraut og gengið yfir Alpana og fleira. Hún er driffjöðurin að því að byggja upp og reka ION Hotel sem er í miðri náttúruperlu á Nesjavöllum undir hlíðum Hengils.

Af hverju ákvaðstu að fara út í hótelrekstur?

„Ég hef verið viðloðandi ferða- og þjónustugeirann síðastliðin 20 ár, var deildarstjóri hjá flugfélagi, bjó til flugfreyjunám og hef unnið mikið við flugfreyjuþjálfun og skrifað handbækur sem snúa bæði að þjónustu og verklagi. Vorið 2007 opnaði ég gistiheimili í Reykjavík og rak það í eitt ár. Mér finnst þjónustu- og ferðamannageirinn skemmtilegur en fyrir utan það hef ég einnig ótvíræðan áhuga á hönnun, tísku og mat en þessum áhuga hef ég náð að tvinna inn í ION. Fyrir utan það var þetta auðvitað fjárfestingartækifæri,“

Hugmyndin á bak við hótelið hefur frá byrjun verið sú að búa til íslenska upplifun með því að tvinna saman íslenska hönnun, arkitektúr, tónlist, myndlist, matargerð og textíl. „Húsgögnin eru flest hönnuð af arkitektum ION, Minarc og smíðuð á Íslandi. Íslenskir myndlistamenn og ljósmyndarar eiga heiðurinn af myndlistinni, sloppar, inniskór, textíll, sápur, húðvörur, blómaskreytingar og jafnvel súkkulaðið á mínibörunum er íslenskt. Við reynum að vinna eins mikið og við getum með íslenskt hráefni og hugvit.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út 17. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.