Beint framlag álklasans til landsframleiðslu, þ.e. samtala beins og óbeins framlags orku-áliðnaðarins (áliðnaðurinn ásamt þeirri orku sem hann nýtir), nam nálægt 6,8% af landsframleiðslu á árunum 2011 og 2012. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagslega stöðu og þróun íslensks áliðnaðar sem unnin var fyrir Samál.

Lauslegt mat á heildarframlagi álklasans, þ.e. beint og óbeint framlag að viðbættum svonefndum eftirspurnaráhrifum (margfaldaraáhrifum), sýnir að það hafi verið ríflega 5% á árinu 2007 en vaxið síðan í rúm 10% á árunum 2010 og 2011 en verið tæp 9% á árinu 2012. Samkvæmt skýrslunni tengist áliðnaðurinn flestum atvinnuvegum á Íslandi, en áhrifin eru mismikil eftir atvinnuvegum. Álklasinn er skilgreindur þannig að hann inniheldur alla þá atvinnuvegi sem rekja 1% eða meira af veltu sinni til áliðnaðarins.