*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Innlent 18. ágúst 2018 19:01

Allar þjóðir skyldugar til að senda upplýsingar

Sprotafyrirtækið Fisheries Technologies hefur verið að þróa upplýsingakerfi fyrir fiskveiðistjórnun frá árinu 2012.

Júlíus Þór Halldórsson
Vilhjálmur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, hefur verið að þróa upplýsingakerfi fyrir fiskveiðar í yfir aldarfjórðung.
Haraldur Guðjónsson

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Vilhjálmur Hallgrímsson og meðstofnendur hans – sem flestir eru tölvunar- og kerfisfræðimenntaðir – hafa áratugareynslu af vinnu við hönnun upplýsingakerfa fyrir sjávarútveg. „Ég og fleiri sem erum viðloðandi þetta fyritæki komum í rauninni frá upplýsingakerfi fyrir íslensk fiskveiðiyfirvöld eins og Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Við erum búnir að vinna að þróun íslenska upplýsingakerfisins frá upphafi þess árið 1992, og jafnvel fyrir þann tíma.“

Að sögn Vilhjálms má segja að stjórnun fiskveiða á Íslandi fari fram í gegnum það kerfi sem varð til úr þeirri vinnu. „Úthlutun kvóta og löndun afla fer fram í þessu kerfi, og það er fylgst algerlega með löndun afla og nýtingastuðlum í gegnum þetta kerfi. Þetta er það sem veitir íslenskum yfirvöldum yfirsýn yfir hvernig fiskveiðarnar ganga.“ Kerfið er auk þess sérsniðið að íslensku umhverfi. „Þessi hugbúnaður sem er notaður hér á landi endurspeglar lög og reglugerðir um íslenska fiskveiðistjórnun og hegðar sér samkvæmt því.“

Vilhjálmur fór til Namibíu árið 2012 á vegum Þróunarsjóðs Evrópusambandsins til að vinna úttekt á upplýsingakerfum, og komst þá að því að upplýsingamálum í fiskveiðum er víða ansi ábótavant. „Ef þeir eru með upplýsingakerfi á annað borð þá er það eitthvað sem er sérsmíðað í hverju landi fyrir sig með tilheyrandi kostnaði og misgóðum árangri. Öllum þjóðum ber að senda upplýsingar um fiskveiðar til Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna og það er alveg vitað að mörg þessara ríkja skila inn tölum sem eru ekki mjög marktækar. Þau hafa bara ekki þessar upplýsingar.“

Vilhjálmur sá því tækifæri í að bæta úr því. „Þar sem við Íslendingar erum nú með eitt viðurkenndasta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi – það er látið vel af því og það virðist vera að virka ágætlega – þá langaði okkur til að nýta þá þekkingu og reynslu sem við höfum aflað okkur á undanförnum árum og áratugum, og búa til upplýsingakerfi sem aðrar þjóðir gætu nýtt sér, og þannig lagt okkar á vogarskálarnar við að endurbæta fiskveiðar víða um heim.“

Þeir hófust því handa og nú er kerfið loksins tilbúið. „Þetta er útgáfa 2 af íslensku fiskveiðistjórnunarkerfi. Svona yrði þetta líklega hannað ef íslenska ríkið fengi tækifæri til að endurhanna sín kerfi frá grunni.“

Næsta skref er síðan að koma kerfinu á markað. „Við höfum verið að kynna þetta fyrir Alþjóðabankanum, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna og Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, og auk þess eigum við í samræðum við fleiri ríki þar sem við erum að kynna þessa vöru. Við erum búnir að vera innan við ár í markaðsstarfi, þannig lagað.“

Stikkorð: Fiskveiðar
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim