Stjórnir lyfjafyrirtækjanna Allergan, móðurfélags Actavis, og Pfizer hafa náð samningum um samruna fyrirtækjanna. Samruninn er metin á um 150 milljarða bandaríkjadala, eða um 20 þúsund milljarða króna. The Wall Street Journal greinir frá.

Hvati samrunans er m.a. að gera Pfizer kleift að losa sig við skattalegt heimilisfesti í Bandaríkjunum til að lækka skattgreiðslur en fyrir þessi fyrirtæki gæti það numið milljónum dala. Pfizer er í dag skráð í Bandaríkjunum en Allergan í Dublin í Írlandi. Vegna þeirra skattareglna yrði Allergan tæknilega kaupandinn, jafnvel þótt Pfizer sé töluvert stærri. Markaðsvirði Pfizer er talið vera um 199 milljarðar dala og Allergan um 123 milljarðar dala.

Forstjóri Pfizer, Ian Read, mun leiða sameinað fyrirtæki og forstjóri Allergan, Brent Saunders, verður næstráðandi.

Allergan hét áður Actavis en skipti um nafn um mitt ár 2015 en Actavis keypti Allergan í mars sl. Sameinað fyrirtæki er meðal 10 stærstu lyfjafyrirtækja í heimi.