Allir þeir sem sæti eiga í peningastefnunefnd Seðlabankans voru á síðasta fundi nefndarinnar fyrr í mánuðinum sammála tillögu Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra og formanns nefndarinnar, að halda stýrivöxtum óbreyttum. Fram kemur í fundargerð peningastefnunefndar að nefndarmenn voru sammála um að peningastefnan þyrfti hverju sinni að taka mið af stefnunni í opinberum fjármálum og öðrum þáttum sem hafa áhrif á eftirspurn í þjóðarbúskapnum. Nokkur óvissa ríki þó um áform í opinberum fjármálum á komandi árum. Nefndin taldi m.a. brýnt að jöfnuður næðist á ríkissjóði sem fyrst þannig að samspil stefnunnar í peninga- og ríkisfjármálum gæti með sem minnstum tilkostnaði stuðlað að ytra jafnvægi þjóðarbúsins, efnahagslegum stöðugleika og verðbólgu í samræmi við markmið.

Þá voru nefndarmenn sammála um að laust taumhald peningastefnunnar hefði stutt við efnahagsbatann á undanförnum misserum. Áfram gilti að eftir því sem slakinn hyrfi úr þjóðarbúskapnum væri nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hyrfi einnig. Að hve miklu leyti aðlögunin ætti sér stað með breytingum á nafnvöxtum Seðlabankans færi eftir framvindu verðbólgunnar, sem myndi ráðast að miklu leyti af þróun launa og gengishreyfingum krónunnar.