Þeir sem sæti eiga í peningastefnunefnd ræddu bæði rökin fyrir því að halda vaxtastigi óbreyttu eða hækka þá á síðasta vaxtaákvörðunarfundi bankans. Fram kemur í fundargerð peningastefnunefndar að helstu rökin fyrir hækkun vaxta hafi verið þau að nauðsynlegt sé að bregðast við strax þar sem nú er talið að slaki í þjóðarbúskapnum hverfi um mitt þetta ár. Það er um hálfu ári fyrr en gert var ráð fyrir í febrúar Seðlabankans. Þá taldi nefndin hættumerki varðandi þrýsting frá vinnumarkaði og blikur á lofti vegna kjarasamninga á næsta ári.

Helstu rök nefndarmanna fyrir því að halda vöxtum óbreyttum voru hins vegar þau að hjöðnun verðbólgu og verðbólguvæntinga hefði haft í för með sér að raunvextir bankans hefðu hækkað þó nokkuð það sem af er þessu ári og slakinn í taumhaldi peningastefnunnar líklega horfinn. Áhrif hækkunar raunvaxta væru hins vegar ekki komin fram að fullu.

Í ljósi þessa lagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri til að vöxtum yrði haldið óbreyttum. Þar með var stýrivöxtum haldið óbreyttum í 6%. Allir nefndarmenn studdu tillöguna.