Grikkir hafa nú boðað þriggja daga allsherjarverkfall. Þetta gera þeir í mótmælaskyni, eftir að þing þjóðarinnar hefur lagt til aukinn niðurskurð ríkisumsvifa til þess að hljóta aukið fjármagn eða lengri greiðslufrest frá lánadrottnum sínum.

Fimm milljarða evru afborgun af lánum ríkisins er nú kominn á eindaga eftir að viðræður við lánadrottna skiluðu litlum árangri. Grikkland er stórskuldugt og efnahagur þjóðarinnar er enn bágborinn eftir alþjóðlega bankahrunið árið 2008.

Kjósa á um róttækar breytingar á lífeyris- og velferðarkerfinu á sunnudaginn en verkalýðsfélög vilja meina að breytingarnar séu niðurskurður hannaður til þess að þóknast fjármálaráðherrum þjóða á evrusvæðinu sem sumar hverjar veittu Grikkjum mikla aðstoð í kjölfar hrunsins.

Lestarsamgöngur og ferjur milli Grikklands og hinna mörgu eyja sem liggja á víð og dreif um miðjarðarhafið eru stopp - en auk þess hafa almenningssamgöngur á borð við neðanjarðarlestir, strætisvagna og léttlestir farið í verkfall næstu þrjá dagana.

Þetta er í fjórða sinnið sem þjóðin fer í slíkt verkfall eftir að Alexis Tsipras og flokkur hans, Syriza, var kjörinn með nauman meirihluta til gríska þingsins. Flokkur Tsipras hefur talað gegn niðurskurðum og hlaut að miklu leyti kjör fyrir þá afstöðu sína, en hefur þó þrisvar aukið við hana frá valdatöku sinni.