Af þeim tólf sveitarfélögum, sem Viðskiptablaðið skoðaði á landsbyggðinni, kostaði að meðaltali um 126 þúsund krónur að leigja 86 fermetra íbúð og var fermetraverði 1.465 krónur. Til samanburðar var meðalleiguverð á höfuðborgarsvæðinu 179 þúsund krónur fyrir 85 fermetra íbúð, sem þýðir að fermetraverðið var 2.160 krónur.

Eins og greint var frá á fimmtudaginn þá er dýrast á leigja á Seltjarnarnesi en þar 192 þúsund krónur á mánuði að leigja 79 fermetra íbúð sem þýðir að fermetraverðið er 2.488 krónur.

Þessar tölur má lesa í nýrri verðsjá Þjóðskrár Íslands sem fór í loftið í síðustu viku. Viðskiptablaðið skoðaði leiguverð á tímabilinu frá 1. september í fyrra til 10. apríl síðastliðins.

Á þessu tímabili kostaði að meðaltali 137 þúsund krónur að leigja 81 fermetra íbúð á Akureyri og af sveitarfélögunum tólf á landsbyggðinni var fermetraverðið því hæst þar eða 1.744 krónur. Næst hæsta verðið var í Hveragerði. Ódýrast var að leigja á Ísafirði en þar kostaði 103 þúsund krónur að leigja 92 fermetra íbúð, sem þýðir að fermetraverðið var 1.125 krónur. Leiguverð á Seltjarnarnesi var því 121% dýrara en á Ísafirði.

Áhugavert er að skoða þróun leiguverðs á fermetra samanborið við sama tímabil árið á undan, þ.e. 1. september 2015 til 10. apríl 2016. Þegar það er gert kemur í ljós að af þeim tólf sveitarfélögum sem Viðskiptablaðið skoðaði á landsbyggðinni hefur leiguverð hækkað mest í Keflavík eða um 16%. Á Sauðárkróki hefur leiguverð hækkað um 12%.

Á tveimur stöðum af þeim 19 sem Viðskiptablaðið skoðaði hefur leiguverð lækkað á milli ára. Á Selfossi lækkaði fermetraverðið um 10% og í Þorlákshöfn um 4%. Í einu tilfelli var ekki hægt að gera samnburð en það var á Höfn í Hornafirði. Ástæðan er að frá 1. september 2015 til 10. apríl 2016 var ekki nægilega mörkum leigusamningum þinglýst en Þjóðskrá birtir ekki upplýsingar nema hægt sé að byggja á að minnsta kosti þremur þinglýstum samningum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .