Kringum 20 starfsmenn af um 30 sem vinna fyrir eignarhaldsfélagið Kaupþing, sem á 87% eignarhlut í Arion banka, eiga von á að geta skipt á milli sín allt að 1,5 milljarða bónuspotti. Verður bónusinn greiddur út í lok apríl 2018 en upphæðin mun velta á hve vel gengur að selja eignir eignarhaldsfélagsins. Þetta kemur fram í DV í dag.

Geta fengið allt að 0,3% af heildareignum í bónus

Er um að ræða mikið til sömu starfsmenn og hafa þegar fengið greiddan bónus upp á tugi milljóna sem þeir fengu þegar nauðasamningum lauk um síðustu áramót.

Þann 30. ágúst næstkomandi verður tillaga að bónuskerfi fyrir starfsmenn Kaupþings lögð fyrir aðalfund þess, en starfsmenn og tilteknir verktakar félagsins geta að hámarki fengið 9,3 milljónir sterlingspunda, jafnvirði um 1.450 milljóna króna. Jafngildir það um 0,3% af heildareignum Kaupþings um mitt þetta ár.

Vandræðaeignir að nafnvirði 800 milljarða

Námu heildareignir Kaupþings samtals 475 milljörðum króna í lok júnímánaðar, þar af um 33 milljarðar í reiðufé. Á meðal helstu erlendu eigna félagsins sem eru óseldar eru fasteignir og hlutir í breskum félögum, auk þess er bókfært virði svokallaðra vandræðaeigna metið á 23,5 milljarða.

Er þar um að ræða lán til félags sem eru með litla eða enga undirliggjandi starfsemi, og er því mikil óvissa um endanlegar heimtur af þeim lánum. Í reikningum Kaupþings er nafnvirði þessara eigna tæplega 800 milljarðar.

Stefnt að sölu hlutar í Arion á árinu, andvirði rennur að mestu til ríkisins

Stærsta einstaka eignin er þó 87% hlutur félagsins í Arion banka, og mun því sala á honum ráða miklu um endanlegar heimtur Kaupþings og þar með bónusgreiðslur til starfsmannanna sem um ræðir. Stendur til að selja einhvern hluta í bankanum á þessu ári.

Afkomuskiptasamningur, sem kröfuhafar slitabúsins gerðu samhliða því að þeir féllust á stöðugleikaskilyrði stjórnvalda, gerir ráð fyrir að stærsti hluti söluandvirðisins renni til íslenska ríkisins.

Myndi ríkissjóður fá þá 115 milljarða króna ef hluturinn yrði seldur í samræmi við bókfært eigið fé, en eigendur Kaupþings myndu fá um 55 milljarða.