Í tillögu Yrki arkitekta sem varð hlutskörpust í lokaðri samkeppni um skipulag á svokölluðum Heklureit er gert ráð fyrir blandaðri byggð íbúða, verslana og hótels, ofan á bílakjallara, þar sem bílaumboðið Hekla er nú til húsa. Björn Axelsson skipulagsfulltrúi Reykjavíkurbogar segir stefnt að því að klára rammaskipulagið í haust en þá geti deiliskipulagsvinnan hafist að því er Morgunblaðið greinir frá.

Verður byggingarsvæðið þá lóðin Laugavegur 168 og Laugavegur 170 til 174 en á þeim stendur nú rúmlega 16 þúsund fermetra húsnæði sem verða rifin, en auk þess verður byggt á lóðinni Brautarholt 32 sem nú er bílastæði. Er um að ræða svæðið frá horni Nóatúns og Laugavegar út að gatnamótum Nóatúns og Hátúns og svo upp á Brautarholt, en lóðin Brautarholt 32 er hinum megin við þá götu frá hinum húsunum.

Í dómnefndarálitinu segir að vinningstillaga Ytri arkitekta sýni byggð með látlaust yfirbragð þar sem fíngerð randbyggð falli vel að því að byggðamynstri sem sé í Holtunum. Stefnt er að því að byggja 5 til 6 hæðir að Laugavegi og 1 til 4 hæðir þar sem landið rís hærra á suðurhluta þess.

Húsnæðið er sagt henta vel fyrir blandaða byggð með áherslu á íbúðir, þar sem hugað er að hvort tveggja í senn heinkalífi íbúa með aflokuðum húgörðum og fjölbreyttum almenningsrýmum og gönguleiðum um svæðið. Jafnframt er gert ráð fyrir biðstöð borgarlínu við Laugaveg 176 í tengslum við stórt torg norðan við húsið og gönguleið frá Hátúni að skipholti.

Þó tekur dómnefndin fram að skýra mynd vanti á ásýndinni við Laugaveginn og vinna megi betur með hornið við Laugaveg og Nóatún. Bílaumboð Heklu hefur fengið lóð við Álfabakka í Suður - Mjódd, rétt við Reykjanesbrautina, þar sem það mun byggja nýjar höfuðstöðvar.