Félag atvinnurekenda segja að afnám tolls á innflutt kartöflusnakk um áramótin, hafi nú þegar stuðlað að verulegri lækkun á verði ýmissa snakktegunda í verslunum.

„Ætla má þó að áhrifin séu ekki komin að fullu fram, enda eru talsverðar birgðir til af snakki sem flutt var inn á fullum tolli fyrir áramót,“ segir í frétt félagsins.

„Hér að neðan eru nokkur dæmi af verðbreytingum á kartöflusnakki í lágvöruverðsverslunum, samkvæmt upplýsingum sem FA hefur aflað sér.

  • Olw snakk, 175 gramma poki, lækkaði úr 245 krónum í 179 krónur eða um 27%.
  • Lay’s snakk 175 gramma poki, lækkaði úr 290-295 í 225-226 krónur, eða 22-24%
  • Maarud snakk, 275 gramma poki, lækkaði úr 688-698 krónum í 398-399 krónur, 42-43%.
  • Pik Nik kartöflustrá, 113 gramma dós, lækkaði úr 339-340 krónum í 259-260 krónur, eða hér um bil 24%.
  • Pik Nik kartöflustrá, 255 gramma dós, lækkaði úr 579-596 kr. í 439-440 kr., eða um 24-26%.

Snakktollurinn nam 59% á tollverð á innfluttu snakki."

Það var Sigríður Andersen, núverandi dómsmálaráðherra, sem lagði tillöguna um afnám tollsins fram á síðasta kjörtímabili. Tollurinn var afnuminn með lögum í árslok 2015 en gildistakan beið í ár til að gefa innlendum snakkframleiðendum aðlögunartíma.

„Við fögnum því að þetta gamla baráttumál félagsins er gengið í gegn og tollalækkunin er þegar byrjuð að skila sér til neytenda,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

„Gera má ráð fyrir að hagur neytenda batni um vel á annað hundrað milljónir króna vegna þessarar tollaniðurfellingar.“