*

miðvikudagur, 23. janúar 2019
Innlent 7. mars 2011 11:22

Allt að 5% orkuleki

Talið er að allt að 5% þeirrar orku sem flutt yrði til Evrópu um sæstreng myndi hverfa á leiðinni. Strengurinn yrði sá lengsti í Evrópu.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Allt að 5% þeirrar orku sem seld verður úr landi, verði hugmyndir um lagningu sæstrengs til Skotlands að veruleika, gæti tapast á leiðinni. Þetta hefur breska blaðið Sunday Times eftir ónafngreindum sérfræðingum en fjallað er um fýsileikakönnun þá er Landsvirkjun vinnur nú að varðandi lagningu sæstrengsins. Eins og fram kom á vb.is 28. febrúar sl. er gert ráð fyrir að strengurinn yrði 1.170 km langur og gæti flutt um 18 TWh á ári en það er nægileg orka til þess að knýja áfram 5 milljónir heimila í Evrópu. Talið er að strengurinn myndi kosta um 2,4 milljarða dala.

„Eitt þeirra vandamála sem Landvirkjun þarf að leysa er orkuleki. Háspennustrengir á borð við NorNed og BritNed leka minni orku en eldri strengir sömu tegundar en eingöngu vegna lengdar strengsins á milli Íslands og Skotlands gætu 5% af orkunni lekið út við flutning, að sögn sérfræðinga,“ segir í umfjöllun blaðsins en með NorNed og BritNed er vísað til sæstrengja á milli Noregs og Holland (NorNed) og Bretlands og Hollands (BritNed). Sá fyrrnefndi er lengsti neðansjávarorkustrengur Evrópu í dag og er 580 km á lengd, um helmingur hugsanlegs strengs frá Íslandi. Sá síðarnefndi er 260 km en hann verður tekinn í notkun á næstunni. Flutningsgeta NorNed er 6 TWh á ári að sögn Sunday Times.

Eins og fram kom í nýlegri úttekt Viðskiptablaðsins á verðmæti orkuauðlindarinnar gætu, varlega áætlað, fengist allt að 200 milljörðum króna árlega fyrir orkusölu árið 2030 og er þá miðað við að heildarframleiðsla á ári verði um 30 TWh. Í dag er framleiddur hér á landi rétt rúmlega helmingur þeirrar orku. Þá er sömuleiðis gert ráð fyrir að sæstrengur verði orðinn að veruleika.

Stikkorð: Orka Sæstrengur NorNed