Þorvaldur Gissurarson forstjóri ÞG Verks sem nú vinnur að því að klára blokkirnar sem nú rísa við Hafnartorg segir að fermetraverðið í íbúðunum sem þar verða á efri hæðum geti hæst orðið á aðra milljón krónur. Segir hann að íbúðirnar verði í áður óþekktum gæðaflokki hér á landi að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Hönnun og frágangur á íbúðum verður í hæsta klassa sem þekkist hérlendis. Það er sérstaklega vandað til innréttinga sem eru sérsmíðaðar,“ segir Þorvaldur. Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá verða verslanir með ýmis lúxusvörumerki á neðstu hæðum húsanna, en nú hefur Michelsen úrsmiður staðfest að þeir muni flytja verslun sína þangað af Laugavegi.

Meðalfermetraverðið 800 þúsund krónur í minni íbúðunum

Áætlaðar eru 69 íbúðir á svæðinu í byggingunum 7 sem rísa á svæðinu, meðalstærð 60 þeirra er um 102 fermetrar, og fermetraverðið áætlað um 800 þúsund krónur að meðaltali. Íbúðirnar eru í samanlagt 7.900 fermetra rými, en þar með talið er áætlað að fjórar hefðbundnar íbúðir verði að einni stórri, 440 fermetra þakíbúð.

Sú íbúð yrði við Geirsgötu ef af yrði, og fermetraverðið þar gæti orðið á aðra milljón króna. Því er þó haldið opnu að íbúðinni yrði skipt og íbúðunum fjölgað á ný.

„Íbúðin er þeirrar gerðar að við förum ekki alla leið nema kaupandi hafi fundist. Efnisval og efnisnýting er skörinni ofar en fólk á að venjast,“ segir Þorvaldur. „Slíkt er ekki hægt að kaupa í búðum. Við sjáum þetta til dæmis í nýjum verkefnum í London, New York og á Miami. Þetta er tilraunaverkefni.“

Auk þess eru samtals 6.100 fermetrar af skrifstofurými til leigu í tveimur af húsunum sem snúa að Arnarhóli, en Þorvaldur segir að nú þegar séu í gangi viðræður um útleigu á stórum hluta þeirra.