Þorvaldur Gissurarson, forstjóri verktakafyrirtækisins ÞG Verk, áætlar að vegna breytinga á byggingarreglugerð frá árinu 2012, lægra lóðaverðs og sveigjanlegri skipulagsskilmála verði hægt að hafa fermetraverð á nýjum íbúðum á Selfossi allt að 30% lægra en samsvarandi íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.

Varað við fimmtungshækkun vegna reglugerðar

Breytingarnar á reglugerðinni fela í sér brotthvarf frá kröfum um stærðir rýma og einstakra herbergja en reglugerðin hefur verið endurskoðuð í áföngum frá því að hún var fyrst sett á að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Á sínum tíma taldi Magnús Stefánsson, formaður Meistarafélags húsasmiða að reglugerðin myndi hækka byggingarkostnað um 10 til 20%.

Aðgangur fatlaðra og lyftur

Upphaflega fól reglugerðin í sér að fjölbýlishús sem hefði þrjár hæðir þyrfti að hafa lyftu, sem og að gangar þyrftu að vera breiðari til að tryggja góðan aðgang fatlaðra. Jafnframt þyrfti rafmagn að vera í útihurðum til þæginda fyrir blinda og svo þyrftu bílastæði að vera upphituð.

Fyrirtæki Þorvaldar hyggst reisa 56 íbúðir í þremur fjölbýlishúsum við Álalæk á Selfossi en hann vonast eftir að þessi mikli verðmunur, sem hann miðar þá við samsvarandi nýbyggingar í úthverfum höfuðborgarsvæðisins, veki mikinn áhuga á íbúðunum.

Kröfur um lágmarksstærðir baðherbergja

„Það er búið að taka út ýmis hamlandi áhrif byggingarreglugerðarinnar, til dæmis kröfur um lágmarksstærðir baðherbergja, þvottahúsa, stofurýma, herbergja og geymslna,“ segir Þorvaldur.

„Þá er meira frjálsræði í skilmálum deiliskuplags á Selfossi en við eigum að venjast. [...] Þá er til dæmis ekki gerð krafa um bílastæði neðanjarðar. Lóðirnar eru ódýrari og opinberu gjöldin lægri.“

Með því að sveitarfélagið setji ekki fram kröfu um bílastæði neðanjarðar sparast um 3,5 til 4,5 milljónir á hvert stæði.