Frá því árið 2008 hefur leigumarkaðurinn á Íslandi stækkað nokkuð, en þá voru 12% þjóðarinnar á leigumarkaði, en í dag eru það um 17%. Af þessum aukna fjölda leigjenda er þó hátt í þriðjungur, eða 29,5% ekki með þinglýstan leigusamning, og einungis 43,3% leigjenda þiggja húsnæðisbætur

Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Unu Jónsdóttur, hagfræðings Íbúðalánasjóðs en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hélt sjóðurinn málþing um nýja könnun um stöðuna á húsnæðismarkaði.

Una segir það skjóta skökku við að stærri hópur notfæri sér ekki húsaleigubætur, en samkvæmt könnuninni þiggja 73% leigjenda með undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur húsaleigubætur, en aðeins 44% þeirra sem eru með á milli 400 til 549 þúsund krónur að því er Morgunblaðið greinir frá.

Vísbending um óskráða leigu að opinber gögn sýni aðeins 2/3 leigumarkaðar

„Þetta getur verið vísbending um óskráða leigu“ segir Una en hún segir könnunina sýna að stór hluti leigjenda sjáist ekki í opinberum tölum. „Þetta þýðir að opinber gögn sýna okkur innsýn í aðeins tvo þriðju leigumarkaðarins.“

Um 85,2% aðspurðra töldu lítið framboð af íbúðarhúsnæði til leigu á Íslandi sem henti sér og sinni fjölskyldu, en í svörum við sömu spurningu árið 2011 töldu 55,7% framboðið vera lítið.

Hlutfall þeirra sem telja óhagstætt að leigja hefur einnig hækkað mikið, eða úr 55,4% árið 2011 í 92,7%, meðan fjöldi þeirra sem sögðu það hagstætt hefur á sama tímabili farið úr 19,3% niður í 4,2%. Í könnuninni kom jafnframt fram að 41% þeirra sem voru að leigja sögðust geta safnað talsverðu eða svolitlu sparifé, meðan hlutfallið var hærra eða 66% þeirra sem bjuggu í eigin húsnæði.

Tvö svör voru mest áberandi fyrir því af hverju fólk væri á leigumarkaði, en 87,5% sögðust ekki hafa hafa efni á því að kaupa og 19% sögðust ekki komast í gegnum greiðslumat.