Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 2,09% í dag og stendur í 1.782,54 stigum en viðskipti á hlutabréfamarkaði námu ríflega 4,7 milljörðum króna. Markaðurinn kipptist til eftir að tilkynnt var að kjarasamningum yrði ekki sagt upp og öll félög enduðu á því að hækka.

Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,28% og stendur því í 1.363,94 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu tæplega 11,2 milljörðum króna.

Mest hækkun var á bréfum N1 en þau hækkuðu um heilt 4,51%  í viðskiptum upp á rúmlega milljarð. Við lok dags var gengi bréfa N1 því 127,50 krónur. Næst mest hækkuðu bréf Eikar eða um 2,89% í viðskiptum upp á 161 milljón króna og stóðu þau því í 9,97 krónum. Þá hækkuðu bréf Icelandair um 2,88% í 546 milljón króna viðskiptum og stóðu því í 16,05 krónum við lokun markaða.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma hækkaði um 1,98% í viðskiptum upp á tæplega 4,3 milljarða. Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,20% í 9,1 milljarðs viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,03 % í 0,5 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,69% í 8,6 milljarða viðskiptum.