Úrvalsvísitala Kauphallar Nasdaq Iceland hefur hækkað um 1,56% þegar þetta er ritað og hafa öll félög hækkað.

Talsverð velta hefur verið með bréf félaga en til að mynda hefur verið 775 milljón króna velta með bréf Regins en gengi bréfa félagsins hefur hækkað um 1,41%. Gengi Icelandair hefur jafnframt hækkað um 2,65% í 317 milljón króna viðskiptum. Fasteignafélagið Reitir hefur enn fremur farið upp um tæp 2% í 373 milljón króna viðskiptum.

Líklegt er að þessar hækkanir tengjast miklum hækkunum í Evrópu , bæði á hlutabréfamarkaði og sterkara gengi evrunnar, samkvæmt heimildarmönnum Viðskiptablaðsins. Til að mynda hækkuðu vísitölur talsvert, eða um fjögur prósent í kauphöllinni í París, um tvö prósent í kauphöllinni í Lundúnum og um 3 prósent í Madríd það sem af er morgni. Þýska DAX vísitalan hefur enn fremur aldrei verið hærri.