Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, spyr hvort ríkisstjórnir geti verið ofmetnar í færslu á facebook.

„Spánn hefur verið stjórnlaus eftir tvennar kosningar og líklegt að ný ríkisstjórn falli með fyrstu fjárlögum. Í stjórnleysinu hefur þó flest gengið Spánverjum í hag og hagvöxtur talinn skríða yfir 3% í fyrsta skipti um árabil,“ segir Össur.

„Belgía, land súkkulaðsins og ein af helstu miðstöðvum Evrópu, hefur um árabil verið meira og minna stjórnlaust land án þess að nokkur hafi tekið eftir. Allra síst Belgar.“

Brýn nauðsyn að kalla þing saman

Í yfirlýsingu sem Viðskiptablaðið birti í morgun , þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ákvað að enginn fengi stjórnarmyndunarumboðið nefndi hann meðal annars „þá brýnu nauðsyn að kalla þing saman.“

Þó hann teldi æskilegra að samkomulag um nýja ríkisstjórn lægi fyrir við þingsetningu.

Áður hefur varaformaður fjárlaganefndar, Guðlaugur Þór Þórðarsson, rætt við Viðskiptablaðið um nauðsyn þess að hefja fjárlagavinnuna sem fyrst, enda gerir fimm ára fjárlagaáætlunin sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sett fram ráð fyrir umsögnum og að fundið sé fjármagn fyrir öllum útgjaldaáætlunum.

Búið að rugla sólarhringnum

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi einnig um það í DV í morgun að nú verði að fara að kalla saman þing vegna fjárlaga.

„...það getur ekki dregist lengur að þingið komi saman. Það er allt í lagi þó að þing hafi ekki farið á fulla ferð strax eftir kosningar en núna, þegar er að koma desember, verður bara að kalla þing saman. Það setur líka þrýsting á menn að klára þessa stjórnarmyndun,“ segir Brynjar sem vill komast sem fyrst í vinnuna og regluna sem henni fylgir.

„...þetta er alveg ömurleg staða. Ég þarf helst að hafa alltaf reglu í lífinu, að hafa takt í vinnunni. Ég hafði þá reglu að mæta alltaf klukkan níu á skrifstofuna og var þar allan daginn nema ef ég þurfti á fund út í bæ.

Nú er ég búinn að rugla sólarhringnum og þetta er allt komið í rugl. Þess vegna fer ég að horfa á bíómyndir um miðjar nætur eða les bók fram eftir öllu. Þetta er ekki gott, þannig að ég vil komast í vinnu, takk.“

Forvitnileg tilraun að Alþingi stjórni, fer ekkert til fjandans á meðan

Össur segir það jafnframt forvitnilega tilraun að sjá Alþingi stjórna landinu um nokkurra mánaða skeið og nefnir að sátt sé um bæði starf Lilju í utanríkisráðuneytinu og að Sigurður Ingi sé fullkomlega til friðs í Stjórnarráðinu.

„Vitaskuld eiga menn að drífa sig í að kalla saman þing, og leyfa því án afskipta áreitins framkvæmdavalds að spreyta sig á að leysa þau örfáu mál sem lausnar krefjast. Allir verða góðir við alla nema Brynjar og Birgitta bítast,“ segir Össur.

„Það fer ekkert til fjandans á meðan. Út úr því slípa menn hornin, hafa tíma til að ræða meintan ágreining til þrautar - og líklegt að út úr því kæmi hin bærilegasta ríkisstjórn.“