Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að svo virðist lagabreytingar á lögum um kjararáð hafi ekki neinu breytt í störfum þess. „Ja, það sér ekki neinn mun þrátt fyrir breytingu laganna fyrir ári. Í þeim lögum var verið að herða á skyldum kjararáðs að vera í einhverju samræmi við vinnumarkaðinn,“ sagði Gylfi. „Það sér þess engin merki,“ bætti hann svo við.

Í gær birtist úrskurður kjararáðs um biskup og aðra embættismenn innan kirkjunnar sem hefur vakið hörð viðbrögð. Í úrskurðinum var m.a. ákveðið að laun biskups skyldu hækkuð um 21% á mánuði afturvirkt til byrjun árs 2017.

Gylfi sagði jafnframt í Morgunútvarpinu að síðan kjararáð úrskurðaði um launahækkanir skrifstofustjóra og ráðuneytisstjóra í fyrra mætti alltaf finna það orðalag í úrskurðum kjararáðs að gæta þurfi innbyrðis jafnvægis. Í kjölfarið hafi laun hvers hópsins á fætur öðrum sem fellur undir kjararáð hækkað.

Jafnframt að það á meðan ástæða hafi þótt til að setja lög á verkfall flugumferðarstjóra hafi þinginu ekki þótt tilefni til að bregðast við úrskurðum kjararáðs.

Um úrskurði kjararáðs segir hann að aðeins tvær leiðir hafi verið færar til að bregðast við þeim. Önnur að stöðva það með lögum en hin að hækka alla aðra með sama hætti. Að vilji almenns launafólks sé að fara skynsemisleið, hægfara en öruggra hækkana, en ekki sé samhljómur með þeim vilja hjá Alþingi. Það sé ljóst að almennt launafólk verði ekki látið sitja eftir, það sé ekki hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að gæta hags fámennra hópa stjórnenda heldur hags almennings.