Að sögn Davíðs leggst nýja starfið gríðarlega vel í hann.

„Ég er búinn að fást við ýmislegt í gegnum tíðina og hef starfað innan bankageirans, orkugeirans, hugbúnaðargeirans og núna ferðaþjónustu- og hugbúnaðargeirans sem samtvinnast saman í núverandi starfi. Auk þess hef ég sinnt kennslu hjá Háskóla Íslands og sit núna í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á rekstri og finnst frábært hvað hægt er að gera mikið með íslensku hugviti. Við hjá Guide to Iceland horfum ekki einungis á innanlandsmarkaðinn heldur líka út fyrir landsteinana með það markmið að taka hugbúnaðinn og setja upp þessa viðskiptahugmynd í fleiri löndum. Þegar hugbúnaður er annars vegar er það nokkuð auðvelt þar sem notast yrði við hugbúnað sem þegar er til staðar en það þarf að sjálfsögðu einnig að markaðssetja hugbúnaðinn og vöruna. Starfsemi Guide to Iceland hefur gengið mjög vel og það eru rosalega spennandi tímar framundan."

„Við erum þegar byrjuð að koma okkur fyrir á erlendum mörkuðum og skrifuðum nýlega undir samning við Philippine Airlines um að stofna félag á Filippseyjum og hefja með þeim samrekstur (e. joint venture). Ætlunin er að setja á fót svipaða starfsemi þar eins og við erum með hér á Íslandi. Við ákváðum að fara í samstarf við flugfélagið til þess að komast fyrr inn á markaðinn og geta nýtt þeirra viðskiptatengsl. Þetta verður því markaðstorg fyrir ferðaþjónustu sem er í eigu beggja aðila. Við höfum einnig mikinn áhuga á því að prófa að setja þetta sjálf upp annars staðar. Hversu mörg lönd verða fyrir valinu á eftir að koma í ljós, en í rauninni er allur heimurinn undir," segir Davíð.

Áður en Davíð hóf störf hjá Guide to Iceland var hann fjármálastjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Greenqloud. Fyrir rúmu ári keypti bandaríska félagið NetApp Greenqloud á 50 milljónir dollara og tók Davíð þátt í sölunni á fyrirtækinu. Hann segir að það hafi verið mjög lærdómsríkt ferli.

„Þetta er ekki eitthvað sem hægt er að læra í kennslubókum. Reynsla mín frá Landsvirkjun reyndist mér mjög vel en þar vorum við að fjármagna að meðaltali 300-400 milljónir dollara á ári. Það að fara í gegnum svona söluferli var virkilega skemmtilegt en einnig mjög krefjandi."

Davíð hefur verið að kenna við Háskóla Íslands frá 2006. „Ég hef mikinn áhuga á kennslu. Það að geta hjálpað öðrum hefur mér alltaf þótt mjög gefandi. Mér þykir einnig mjög skemmtilegt að ferðast, bæði innanlands sem og erlendis. Auk þess stunda ég líkamsrækt og tel að nauðsynlegt að hreyfa mig þótt það sé mikið í gangi," segir Davíð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .