Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað Ölmu Dagbjörtu Möller nýjan landlækni frá 1. apríl næstkomandi. Alma verður fyrst kvenna til að gegna þessu embætti hér á landi. Umsækjendur um stöðuna voru sex og var Alma önnur tveggja sem lögskipuð hæfnisnefnd mat hæfasta.

Alma er með sérfræðiviðurkenningu og doktorsgráðu í svæfinga- og gjörgæslulækningum, meistarapróf í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu og sérfræðiviðurkenningu í heilbrigðisstjórnun. Hún hefur frá árinu 2014 verið framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala háskólasjúkrahúss og um árabil var hún yfirlæknir á gjörgæsludeildum Landspítalans í Fossvogi og við Hringbraut. Á árunum 1999 – 2002 starfaði Alma við Háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð og gegndi þar stjórnunarstörfum á svæfingadeildum, auk þess að starfa sem sérfræðingur á gjörgæsludeild barna við sjúkrahúsið.