Meðstofnandi og forstjóri sjóðstýringafélagsins Gamma Capital Management, sem stýrir eignasafni að andvirði 1 milljarði dala eða sem samsvarar 104 milljörðum íslenskra króna, segir lækkandi stýrivexti hjálpa til við að knýja hækkanir á húsnæðismarkaði.

Þetta kemur fram í viðtali Bloomberg fréttastofunnar við Gísla Hauksson, stjórnarformann Gamma, en þar segist hann búast við frekari hækkunum ofan á 56% raunverðshækkun húsnæðisverðs frá því árið 2009.

Gísli vísar jafnframt í greininni í fjárfestingar Gamma í húsnæði, en sjóðir í stýringu félagsins eiga Almenna leigufélagið sem eins og Viðskiptablaðið sagði frá keypti leigufélagið Klett af Íbúðalánasjóði á síðasta ári. Segir hann félagið stefna að því að byggja 4.000 íbúðir á næsta hálfa áratugnum, og vill hann setja félagið á markað á næsta ári.

Skortur styður við húsnæðismarkaðinn

„Hvort tveggja raun og nafnvextir hafa verið að lækka nokkuð hratt á Íslandi,“ segir Gísli en fréttin vísar í að á miðvikudag verður næsta stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans, sem lækkaði vexti um 0,25 punkta í síðasta mánuði. „Eftirspurnin er vaxandi og á næstu árum mun skortur á framboði styðja áfram við markaðinn.“

Segir fréttastofan að raunverð húsnæðis hafi fallið um þriðjung á tveimur árum eftir efnahagshrunið árið 2008, og hagvöxtur dregist saman um 7% árið 2009. Hagkerfið hafi hins vegar vaxið um annað eins á síðasta ári, og áhugi erlendra fjárfesta hafi vaknað síðan Seðlabankinn aflétti fjármagnshöftum á árinu.

Ferðamannastraumurinn og byggingariðnaðurinn sé a knýja hagvöxtinn áfram, en skammtímaleiga, líkt og í gegnum Airbnb hafi knúið verðhækkanir áfram. Hafi íbúðir á leigu í gegnum síðuna fjölgað um 65% frá því fyrir ári, að mati Seðlabankans sem spáir áframhaldandi skorti á húsnæði a.m.k. næstu tvö árin.