*

laugardagur, 16. febrúar 2019
Innlent 17. janúar 2018 15:21

Almenni og Birta skila góðri ávöxtun

Fjórir sjóðir hjá Almenna skiluðu meira en 7% raunávöxtun og ávöxtunarleiðir Birtu skiluðu 5,6% og 5,9% árið 2017.

Ritstjórn
Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.
Haraldur Guðjónsson

Fjórir sjóðir hjá Almenna lífeyrissjóðnum skiluðu meira en 7% raunávöxtun á árinu 2017 en í frétt á vef sjóðsins segir að hagfellt ár sé að baki. Samtryggingarsjóður Almenna skilaði 7,4% raunávöxtun en mesta ávöxtunin var í flokkri safns langra ríkisskuldabréfa eða 7,9% raunávöxtun. Minnst var ávöxtunin í innlána en það hækkaði um 1,9% að raunvirði.

Birta lífeyrissjóður hefur einnig gefið út afkomutölur fyrir árið 2017 en skuldabréfaleið Birtu gaf 5,9% raunávöxtun á árinu, blönduð leið skilaði 5,6% ávöxtun og innlánssafnið 2% ávöxtun  en þessar tölur Birtu eiga við um séreignarleiðir sjóðsins. Ekki eru komnar fram tölur yfir afkomu samtryggingardeildar Birtu en á vef sjóðsins segir að allt bendi til þess að afkoma samtryggingardeildar hafi verið góð líka. Í fyrra var raunávöxtun Birtu neikvæð um 1,5%.

Á vef Almenna lífeyrissjóðsins segir að sá eignaflokkur sem hækkaði mest á síðasta ári voru erlend hlutabréf. Heimsvísitala hlutabréfa, MSCI, hækkaði um 22,4% mælt í dölum en vegna styrkingar íslensku krónunnar gagnvart dalnum þá hækkaði hún um 13,3% í krónum. Ennfremur lækkaði ávöxtunarkrafa langra verðtryggðra skuldabréfa verulega á árinu 2017 með tilheyrandi gengishagnaði en ávöxtunarkrafa og verð skuldabréfa standa í beinu neikvæðu sambandi þ.e. ef ávöxtunarkrafa lækkar þá hækkar verð bréfanna.

Miðað við tölur um ávöxtun þessara tveggja lífeyrissjóða virðist töluverður viðsnúningur frá því í fyrra þegar raunávöxtun var engin þ.e. núll prósent. Meðalávöxtun lífeyrissjóða OECD ríkjanna var hins vegar 2,8% árið 2016.

Í desember tilkynnti lífeyrissjóðurinn Gildi að fyrstu tíu mánuði ársins hefði hrein ávöxtun á ársgrundvelli verið um 5,1% en árið áður hafði raunávöxtun samtryggingardeilda sjóðsins verið neikvæð um 0,9%. Það eru því vísbendingar um að viðsnúningur sé að verða á ávöxtun lífeyrissjóða landsins á milli ára.