„Á almenningur að fjárfesta í smærri fyrirtækjum?“ er heiti fundar Viðskiptablaðsins, Kauphallarinnar og Háskólans í Reykjavík sem haldinn verður á fimmtudaginn. Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags-og viðskiptanefndar, hefur lagt fyrir þingið frumvarp sem heimilar lífeyrissjóðum að fjárfesta í fyrirtækjum á First North markaði og flokka þau bréf sem skráð í sínum bókum.

Viðskiptablaðið hefur fjallað um málið en Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að í þessu felist tækifæri fyrir smærri fyrirtæki sem vilji leita sér fjármögnunar.

Á fundinum mun Páll fara yfir reynsluna í Svíþjóð en þar hefur First North markaðurinn blómstrað undanfarin ár. Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri íslenskra viðskipta hjá Meniga, mun fjalla um tækifærin sem felast á Íslandi. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, mun hefja fundinn á að fara yfir fjármögnun til nýsköpunar og vaxtar.

Í pallborði í lokin verða Ari Kristinn, Kristján Freyr, Páll og Frosti ásamt Andra Guðmundssyni, forstjóra H.F. Verðbréfa.

Skráning á fundinn er á [email protected].