Una Jónsdóttir, hagfræðingur Íbúðalánasjóðs, segir að þegar leitað sé á vef Þjóðskrá sjáist að meðalfermetraverð fyrir Miðbæ, Hlíðar og Vesturbæ sé um 463.161 kr. ef söluverð sé skoðað óháð byggingarári.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um miða forsvarsmenn þeirrar uppbyggingar sem nú er í gangi í Hlíðarendabyggð við 600 þúsund króna fermetraverð, en fyrstu 40 íbúðirnar koma í sölu í haust.
Byggingarsvæðið sem nú er að rísa á gamla helgunarsvæði neyðarbrautarinnar við Reykjavíkurflugvöll er ein stærsta íbúðabyggingarframkvæmd landsins.

„Nýjar íbúðir sem hafa risið miðsvæðis bera hærra fermetraverð en eldri íbúðir sem ganga kaupum og sölum á sama svæði yfir sama tímabil. Samkvæmt kaupsamningum sem Þjóðskrá heldur utan um er meðalfermetraverð íbúða sem byggðar voru í fyrra og í ár, í 101 og 107 yfir 500.000 kr. á fermetrann,“ segir Una.

„Þær íbúðir sem hafa komið nýjar inn á markað upp á síðkastið eru ef til vill ekki á því verði sem almenningur í mesta húsnæðisvanda ræður við, og það veldur okkur áhyggjum.“

Fjárfestingarfélagið Hlíð á reit D, sem er einn fjögurra stórra íbúðareita í Hlíðarendabyggðinni, en Valdimar Svavarsson framkvæmdastjóri félagsins segir að verið sé að ganga frá kaupum á reit C af Sigurði Sigurgeirssyni, sem er meðhluthafi í Hlíð.

„Við erum bara að færa þessa lóð inn í sama fyrirkomulag og er á lóðinni við hliðina, en sá reitur er skemur á veg kominn heldur en D reiturinn þar sem við munum hefja framkvæmdir núna í ágúst,“ segir Valdimar en félagið ákvað að fullnýta ekki heimild Reykjavíkurborgar til að fjölga íbúðum sem veitt var í vor.

„Við vorum eiginlega búnir að láta fullhanna þetta en við munum reyna að fjölga aðeins meira á C reitnum og komum við sennilega til með að fjölga okkar íbúðum um 5 til 7% innan þess sveigjanleika sem við höfum. Ég veit til dæmis að í E reitnum þá ætla þeir að reyna að fullnýta þessi heimild.“ Fjárfestar á vegum Hilmars Kristinssonar og Alvogen leiða þá uppbyggingu.

Valdimar segir að þó hvert hús verði byggt í einu lagi sé í útboðsskilyrðum að útlit húsanna verði fjölbreytilegt þannig að hver stigagangur verði eins og sérstakt hús.

„Mig minnir að hjá okkur á D reit séu þetta 12 stigagangar, sem hver og einn hefur sinn karakter og einkenni, en enginn einn stigagangur eða íbúðaþyrping verður með sömu klæðningu eða sama útlit. Innra útlitið verður einnig mjög fjölbreytilegt eftir íbúðum en þær verða allt frá tæplega 60 fermetrum upp í 260 fermetra að stærð,“ segir Valdimar sem segir markmiðið að gera fjölbreytta byggð sem henti mismunandi kaupendum.

„Þessar stóru og miklu íbúðir eru líka með stórum og góðum geymslum fyrir skíðin og gólfsettin og þess háttar, þannig að lífsgæðin eiga að vera há á þessu svæði. Síðan blandast inn í þetta að C reiturinn verður með aðeins minni íbúðum, þó að það verði nokkrar stórar þarna innan um. Það eru þaksvalir á mörgum íbúðunum en stigagangarnir eru á blandaðir frá þremur upp í fimm hæðir. Það eru jafnvel íbúðir á tveimur hæðum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .