Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gerir ráð fyrir að nýtt fjárlagafrumvarp verði lagt fram á miðvikudaginn. „Við ætlum að setja ákveðið mark bæði á tekju- og gjaldahlið frumvarpsins, auk þess sem unnið er samhliða að nýrri fjármálastefnu til næstu fimm ára,“ segir Bjarni í samtali við Morgunblaðið .

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá er stefnt að því að klára vinnuna við fjárlagafrumvarpið á morgun, en búist er við að gengið verði endanlega frá því á ríkisstjórnarfundi sem fram fer þá.

Fram hefur komið að í stjórnarsáttmála er talað um að kolefnisgjald verði tvöfaldað strax, sem og að það verði síðar hækkað meir í áföngum, en Bjarni segir stefnt að lækkun eldsneytisgjalds. Í frumvarpi fyrri ríkisstjórnar var einnig talað um tvöföldun kolefnisgjalds sem átti að skila ríkissjóði 4 milljörðum, en jafnframt var stefnt að hækkun eldsneytisgjalds til að jafna verð á dísil og bensíni, og átti sú hækkun að skila 1,7 milljarði.

„Við munum endurskoða áform um álag á eldsneyti og endurskoðum það til lækkunar,“ segir Bjarni. „Jafnframt er horft til heilbrigðiskerfisins og á samgöngur í frumvarpinu, það er að styrkja þessa málaflokka.“