Alþingi staðfesti í dag fimmtán tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við nýjan áfrýjunardómstól á Íslandi, Landsrétt. Tillagan var samþykkt með 31 atkvæði gegn 22, en átta þingmenn sátu hjá. Allir stjórnarandstöðuþingmenn kusu gegn tillögunni, að þingmönnum Framsóknarflokksins undanskildum.

Í ræðu sinni sagði ráðherra: „Ég var ánægð og þakklát að sjá svo marga gefa kost á sér til vandasamra verka og svo margir þeirra vel til starfans fallnir.“ Tillögur ráðherra verða nú sendar forseta Íslands til staðfestingar.

Eftirfarandi aðilar verða því skipaðir við Landsrétt: Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Þorgeir Ingi Njálsson.