„Ef það verður byggður alþjóðaflugvöllur í Hvassahrauni þá sést að það er engin skynsemi í að hafa hann og Keflavíkurflugvöll hlið við hlið. Ef íslenska ríkið ákveður að reisa þar alþjóðaflugvöll þá sést að Keflavíkurflugvelli verður lokað og sá Svarti-Pétur situr eftir hjá ríkinu,“ segir Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia.

Sveinbjörn var gestur á Sprengisandi hjá Kristjáni Kristjánssyni. Undir lok viðtalsins var hann spurður út í mögulega uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni. Svar Sveinbjarnar var á þann veg að óraunhæft væri að byggja þar alþjóðaflugvöll.

„Uppbyggingin myndi kosta 300 til 400 milljarða. Innanlandsflugvöllur yrði hins vegar margfalt ódýrari,“ segir Sveinbjörn. Ástæða þess er meðal annars að stærri flugbrautir þyrfti fyrir alþjóðavöll, stærri flugstöð og aðrar kröfur eru gerðar til frárennslis og geymslu á olíubirgðum.

Sveinbjörn sagði ákvörðunina um uppbyggingu flugvalla vera alfarið í höndum ríkisins og Isavia kæmi ekki að þeim að öðru leyti en að reikna út ýmis flugtæknileg atriði. Gildi það hvort sem innanlandsflug verði í Reykjavík, Hvassahrauni eða Keflavík.

„Við komum með upplýsingar um það sem skiptir máli fyrir aðflug og ýmsa tæknilega hluti. En ákvörðun um staðsetningu er alltaf þess sem borgar þann rekstur. Þó við sjáum um reksturinn þá eigum við engin mannvirki, til að mynda á Reykjavíkurflugvelli. Við erum með þjónustusamning vegna þeirra þar sem þeir eru ekki sjálfbærir,“ segir Sveinbjörn.