Íslenska sprotafyrirtækið DataMarket hóf í dag miðlun á alþjóðlegum gögnum, meðal annars frá Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðabankanum, Eurostat og Gapminder. Hjálmar Gíslason, stofnandi DataMarket, segir í tilkynningu um breytingarnar að gögnin innihaldi verðmætar upplýsingar fyrir svo að segja hvaða einasta fyrirtæki og heimili til að skilja heiminn betur og taka betri ákvarðanir. DataMarket hefuð boðið upp á sambærilega þjónustu, þar sem hægt er að skoða og bera saman hagögn, fyrir innlend tölfræðigögn frá því í maí á síðasta ári.

Tilkynning DataMarket:

Fyrir tilstilli manna eins og Tim Berners-Lee og Hans Rosling hafa alþjóðastofnanir og ríkisstjórnir heimsins síðastliðin tvö ár opnað aðgang að gríðarlegu magni gagna“, segir Hjálmar Gíslason, stofnandi DataMarket. „Þessi gögn innihalda verðmætar upplýsingar fyrir svo að segja hvert einasta fyrirtæki, heimili og einstakling til skilja heiminn betur og taka betri ákvarðanir. Vandinn er hins vegar sá að það er enn frekar erfitt að finna þessi gögn og nálgast þau.“

DataMarket hefur boðið upp á sambærilega þjónustu hér á landi síðan í maí síðastliðnum. Sá rekstur hefur skilað fyrirtækinu mikilvægri reynslu og möguleikum til að prófa hugmyndir, tækni og þjónustuframboð. „Við teljum að nú séum við tilbúin fyrir alþjóðamarkað", segir Hjálmar.

Gögn sem eru opin og ókeypis annars staðar verða áfram opin og ókeypis á DataMarket, en þar opnast hins vegar nýir möguleikar til að leita, bera saman og greina gögnin á sama stað og með einfaldari hætti. Þeim sem greiða mánaðarlegt áskriftargjald opnast svo auknir möguleikar í kerfinu, svo sem að draga mikilvæg gögn saman í skýrslur sem uppfærðar eru sjálfkrafa með nýjustu gögnum, og niðurhal á gögnum á fjölbreyttara sniði.

Á DataMarket munu notendur líka finna gögn frá markaðsrannsóknarfyrirtækjum, fjármálamörkuðum og greiningaraðilum sem aðeins eru aðgengileg gegn gjaldi. „Við erum að koma á fót virkum markaði með tölfræðigögn og þó mikið af slíkum gögnum séu tiltæk frá opinberum aðilum eru dýpri og sértækari greiningar oft aðeins fáanlegar frá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í öflun slíkra gagna“, segir Hjálmar.

Úrval gagna sem í boði á DataMarket.com frá og með deginum í dag er umtalsvert. Meira en 13.000 gagnasett sem innihalda næstum 100 milljón tímaraðir um allt frá atvinnuleysi á Evru-svæðinu

( http://the.fact.is/f8JmJX ) til appelsínuuppskeru í Pakistan ( http://the.fact.is/eOgPyD ).

Hina nýopnuðu þjónustu DataMarket má finna á: http://datamarket.com/