*

föstudagur, 24. maí 2019
Fjölmiðlapistlar 25. nóvember 2018 13:09

Alveg að trumpast

Fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins fjallar um hið einkennilega samband forseta Bandaríkjanna við fjölmiðla.

Andrés Magnússon
epa

Vestur í Washington kom á dögunum upp enn eitt furðumálið hjá appelsínugula manninum í Hvíta húsinu. Á blaðamannafundi þar fyrr í mánuðinum tók forsetinn að munnhöggvast við Jim Acosta, fréttamann CNN, en brá svo á það ráð að óska eftir spurningum frá öðrum og neitaði að taka við eftirfylgnisspurningum frá Acosta.

Þetta var alveg nógu vandræðalegt út af fyrir sig, en varð nánast annarlegt þegar Acosta tók að stimpast um hljóðnemann við kvenkyns lærling í Hvíta húsinu, sem hafði þann starfa að bera hljóðnemann á milli blaðamanna. Allt auðvitað í beinni útsendingu.

Eftir fundinn greip blaðafulltrúi forsetans til þess óvenjulega ráðs að svipta Acosta blaðamannapassanum að Hvíta húsinu. Því til stuðnings var því haldið fram að hann hefði lagt hendur á lærlinginn með óviðurkvæmilegum hætti og myndbandsklippa birt því til sönnunar. Á daginn kom síðan að nokkrum römmum í ræmunni hafði verið hraðað til þess að tog þeirra um hljóðnemann virtist vera átakameira en raunin var. Only in America.

Þegar upp komst voru svörin þau, að hegðun Acosta hefði verið óviðeigandi, svona almennt, en þar fyrir utan væri það alfarið undir starfsliði forsetans komið hver fengi aðgang að Hvíta húsinu með blaðamannapassa.

Þetta síðastnefnda er auðvitað mjög einkennilegt eða við skulum bara segja rangt. Auðvitað geta verið málefnalegar ástæður fyrir því að einhver fái ekki slíkan blaðamannapassa, þeir eru ekki veittir hverjum sem er, eru mjög eftirsóttir og lærð list að baki því hvaða fjölmiðlar og fjölmiðlafólk komist í hirðina í vesturvæng Hvíta hússins. En það má ekki velta á dyntum þess, sem gegnir forsetaembættinu hverju sinni. Það er nauðsynlegt að fjölmiðlar hafi aðgang að embættinu og geti spurt þeirra spurninga, sem spyrja þarf. Veita valdinu aðhald. En það snýst um embættið, ekki þann sem því gegnir.

Þetta furðumál var komið inn í réttarsali þegar forsetinn eða samstarfsmenn hans áttuðu sig á ruglinu og féllu frá fyrri ákvörðun. Svo Jim Acosta er aftur kominn með VIP-passa.

***

Svo pressan vann og presidentinn tapaði, ekki satt? Nei, ekki er það nú alveg, því með fylgdu nýjar reglur um högun blaðamannafunda, þar á meðal að hver blaðamaður mætti aðeins spyrja einnar spurningar, en forsetanum eða blaðafulltrúa hans væri í sjálfsvald sett hvort þeir tækju við eftirfylgnisspurningum.

En svo má velta þessu fyrir sér frá annarri hlið. Eins og allir vita þrífst forsetinn á átökum, stælum og yfirhalningum. Þrátt fyrir að löngu sé vitað að hann hefur ímugust á Acosta, þá hefur forsetinn hvað eftir annað gefið honum orðið á blaðamannafundum. Fyrst og fremst þó þegar hann er kominn í vandræði með spurningar frá öðrum blaðamönnum, en þá hefur hann hleypt Acosta að og aðallega svarað með skætingi og gjammi um að CNN sé nú bara með falsfréttir.

Á þessu græða sjálfsagt báðir, Trumpurinn og Acosta, hvor inn í sinn aðdáendahóp. Og ekki sýtir CNN þetta, því þannig virðist stöðin (sem fyrir ekki löngu virtist vera að syngja sitt síðasta sem fréttastofa) vera í hringiðunni miðri, helsti ásteytingarsteinn forsetans umdeilda. Svo það er ekki ljóst hver vann, en almenningur tapaði nær örugglega.

***

Í þessu samhengi er rétt að víkja aðeins að hinu einkennilega sambandi forsetans og fjölmiðla og fjölmiðlamenn. Hann þreytist ekki á að atyrða þá flesta, en þeir hafa sumir tekið til við að svara í sömu mynt, líta jafnvel á sig sem sérstaka stjórnarandstæðinga. En það er ekki hlutverk þeirra og með því að fara í sama pytt og forsetinn byggja þeir undir samsæriskenningar hans um fjölmiðla

Fréttamenn eiga að spyrja spurninga, komast að hinu sanna og veita aðhald. Fari þeir út af því sporinu eru þeir ekki lengur fréttamenn, ekki lengur vitni að atburðunum, ekki lengur tíðindamenn almennings.

Í því lágu einmitt mistök Acosta á þessum blaðamannafundi. Hann var að spyrjast fyrir um Flóttamannalestina svokölluðu (e. migrant caravan), aðgerðir Trump-stjórnarinnar og skrímslavæðingu vegna hennar, en stóðst svo ekki mátið og bætti við: „Þetta er ekki innrás.“ Það var staðhæfing en ekki spurning, um leið var hann ekki lengur að spyrja forsetann heldur að standa í kappræðu við hann, en fyrir vikið lagði hann Trump vopn í hendur, sem þá gat með nokkrum rétti efast um fagmennsku Acosta. Ekki síst eftir að hann vildi ekki láta hljóðnemann af hendi. Staða fjölmiðla vestra er alveg nógu veik gagnvart framkvæmdavaldinu þó menn séu ekki ganga í eigin gildrur með þessum hætti.

***

Í lauslegu framhaldi af þessu ræddu áhugamenn um fjölmiðlun um það hvernig þessu væri farið á Íslandi. Hvort íslenskir ráðamenn gætu hunsað fjölmiðla með þessum hætti, svipt þá aðgangi að blaðamannafundum eða stjórnvaldinu með öðrum hætti. Og eins hvort þeir gætu náð sama árangri með því að láta ekki ná í sig þar til fjölmiðlamenn missa áhugann.

Á litla Íslandi er það nú svo að flest fólk er flesta daga fjarskalega ínáanlegt. Stjórnmálamenn nærast að miklu leyti á kastljósi fjölmiðla og taka yfirleitt alltaf símann frá þeim. Á því geta þó verið undantekningar.

Á sínum tíma var t.d. talað um það að Davíð Oddsson vildi í forsætisráðherratíð sinni ekki veita tilteknum fjölmiðli viðtal. Þegar að var gáð var það raunar ekki alveg á eina bók lært, en hugsanlega fannst mörgum bera á því vegna þess að Davíð var aldrei örlátur á viðtöl, taldi að sumir fyrirrennarar sínir hefðu gert alltof mikið af því, en hefur sjálfur hugsanlega haft lögmál framboðs og eftirspurnar í huga. En þegar hann hafði eitthvað sérstakt að segja fór hann líka í viðtöl og talaði í fyrirsögnum.

Seinna var gert gys að því að þegar Steingrímur J. Sigfússon rataði í erfið mál lét hann sig ævinlega hverfa í gönguferð upp á hálendi, svona yfirleitt þangað til síminn hætti að hringja. Yfirleitt var hins vegar auðvelt að ná í Steingrím í fjármálaráðherratíð hans og hann forðaðist sjaldnast erfiðar spurningar. Hins vegar tók hann ekki símann frá Morgunblaðinu nema í ógáti og fékk þess vegna kannski sjaldnar erfiðar spurningar.

Síðustu vikur hefur Dagur B. Eggertsson hlotið hliðstæða gagnrýni, að þrátt fyrir endalaus vandræðamál í Ráðhúsinu sé borgarstjórinn aldrei til svars. Nú hefur Dagur lengi haft það orð á sér að láta undirsáta og samherja ævinlega um erfiðu spurningarnar, en vera sjálfur aðeins í upptaktinum, borðaklippingunum og snittunum. Undanfarna mánuði hefur hann hins vegar átt við alvarleg veikindi að etja og má ekki á milli sjá hvort er fráleitara, að ætlast til þess að blaðamenn þjarmi að honum við slíkar kringumstæður eða að ýja að því að hann sé að notfæra sér veikindin til þess að komast hjá erfiðri umræðu.

***

Hitt er annað mál, að stjórnmálamenn (og fleiri viðmælendur svo sem) kvarta stundum undan ágangi fjölmiðla, að þeir vilji allir fá „sín svör“, jafnvel þó svo spurningunum hafi þegar verið svarað á öðrum vettvangi. Því það er ekki þannig að fjölmiðlar geti knúið menn til sagna. Ef stjórnmálamaður kærir sig ekki um að ræða við tiltekinn fjölmiðil (og fyrir slíku geta verið gildar ástæður), þá er það bara þannig, enda mun hann bera af því pólitískan kostnað, beinan og óbeinan.

Þar þarf að gera greinarmun á hinum kjörna stjórnmálamanni, sem getur valið sér viðtöl ef vill og þarf ekki að standa neinum reikningsskil nema kjósandanum í kjörklefanum, ráðherranum, sem gegnir beinu störfum í nafni ríkisvaldsins og þarf að vera til svara við einhverja ef ekki alla, og síðan ráðuneytið, sem þarf að svara öllum.

Auðvitað er skiljanlegt að miðlarnir vilji fá „sín kvót“, að það sjáist að þeir hafi unnið vinnuna sína. Þeir þurfa þó að fella sig við það að viðmælendunum ber engin skylda til þess að svara öllum, alltaf. Skylda valdhafanna snýr að því að svara almenningi (um eða fyrir tilstuðlan fjölmiðla), ekki að vera öllum fjölmiðlum sjálfvirk efnisuppspretta, þannig að hver fái sitt.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim