Alþjóðlega lyfjafyrirtækið Alvogen hefur sagt upp um 25 starfsmönnum á skrifstofu sinni á Möltu. Jafngildir það um fjórðungi af starfsmannafjölda fyrirtækisins þar í landi. MaltaToday greinir frá.

Meðal þeirra sem sagt var upp voru vísindamenn og starfsmenn sem áður störfuðu fyrir Actavis á Möltu.

Nokkuð hefur verið um uppsagnir í lyfjageiranum í Möltu upp á síðkastið vegna niðurskurðar, samruna og innkomu nýrra fyrirtækja, en lyfjageirinn þar í landi hefur verið í talsverðum blóma. Efnahagsráðuneyti Möltu segir að stjórnendur Alvogen hafi tekið ákvörðun um uppsagnir í kjölfar ákvörðunar sem hefur áhrif á starfsemi samstæðunnar um allan heim, að því er kemur fram í frétt MaltaToday.

Alvogen, sem hóf starfsemi á Íslandi árið 2010, sérhæfir sig í þróun og framleiðslu samheitalyfja, lausasölulyfja og líftæknilyfja. Forstjóri Alvogen er Robert Wessman. Hjá fyrirtækinu starfa um 2.800 starfsmenn í 35 löndum.

Alvogen opnaði skrifstofu á Möltu árið 2014 eftir að Actavis lokaði rannsóknar- og þróunardeild sinni þar eftir að Verkalýðsflokkurinn í Möltu tryggði sér meirihluta á þinginu árið 2013.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær skoðar Alvogen nú mögulega sölu á rekstrareiningum sínum í Mið- og Austur-Evrópu fyrir um einn milljarð dala eða sem nemur um 102 milljörðum króna.