Alvotech hefur gert 22 milljarða króna samning við kínverska lyfjafyrirtækið Changchun High & New Technology Industries um þróun, framleiðslu og markaðssetningu líftæknilyfja í Kína. Fyrirtækin hyggjast hefjast handa við byggingu nýrrar lyfjaverksmiðju í Changchun í Kína strax á næsta ári að því er fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag.

Fyrirtækin munu eiga lyfjaverksmiðjuna til jafns og skipta með sér væntanlegri arðsemi af samstarfinu. Kínverska félagið mun leggja félaginu til 100 milljónir dollara, um 11 milljarða króna, en Alvotech til 10 milljónir dollara, 1,1 milljarð króna, og markaðsleyfi fyrir sex líftæknilyf sem markaðssett verða þar í landi á næstu árum. Andvirði markaðsleyfanna í Kína er metið á 90 milljónir dollara, tæplega 10 milljarða króna, samkvæmt samningnum.

Róbert Wessman, stofnandi Alvotech, segir samninginn mikilvægt skref í uppbyggingu Alvotech og tryggi félaginu gott aðgengi að kínverskum lyfjamarkaði sem sé í miklum vexti. „Með samstarfinu verður til öflugt fyrirtæki í Kína sem nýtir þekkingargrunn Alvo-tech til framleiðslu á líftæknilyfjum. Samstarfssamningurinn ber vott um virði þeirrar nýsköpunar sem hefur átt sér stað innan Vísindagarða Háskóla Íslands á undanförnum árum,“ segir Róbert.

Árstekjur Alvotech verði yfir 100 milljarðar

Alvotech vinnur að þróun sex líftæknihliðstæðu lyfja (e. bio-similars), þar sem einkaleyfi munu renna út á næstu árum, sem nýtast mun við meðhöndlunar á ýmsum algengum og erfiðum sjúkdómum eins og gigt og krabbameini. Alvotech stefnir á að vera í hópi fyrstu fyrirtækja á markað með umrædd líftæknilyf þegar einkaleyfin renna út. Forsvarsmenn Alvotech hafa bent á að söluverðmæti þeirra frumlyfja sem nú eru á markaði og Alvotech mun markaðssetja á heimsvísu sé um 55 milljarðar Bandaríkjadala á ári, eða sem nemur um 6.000 milljörðum króna.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er vonast til að árstekjur Alvotech verði vel á annað hundrað milljarða króna þegar öll lyf fyrirtækisins verða komin á markað á næstu árum.

Halda áfram uppbyggingu á Íslandi

Uppbygging fyrirtækisins hér á landi heldur áfram samhliða framkvæmdum á erlendri grundu. Verksmiðja félagsins í Vatnsmýri fékk í vikunni framleiðsluleyfi og gæðavottun frá Lyfjastofnun Íslands. Um 250 vísindamenn starfa hjá systurfyrtækjunum Alvotech og Alvogen á Íslandi.

„Hátæknisetur Alvotech á Íslandi mun áfram þjóna mikilvægu hlutverki þar sem hugvitssköpun fyrir alla markaði fyrirtækisins á sér stað hér auk framleiðslu fyrir aðra markaði en Kína,“ segir Rasmus Rojkjaer, forstjóri Alvotech. Verksmiðjan í Kína verði mjög vel tæknivædd enda séu gæðakröfur í Kína að aukast og eftirspurn eftir hágæðalyfjum sömuleiðis.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .