Markaðsverðmæti netsölurisans Amazon fór fyrr í dag yfir 500 milljarða dollara í fyrsta skipti frá því að félagið var skráð á markað. Gengi bréfa félagsins stendur nú í 1.050,64 dollurum á hlut og hefur hækkað um 1,04% það sem af er degi og stendur heildarmarkaðsvirði félagsins nú í 502,44 milljörðum dollara.

Hefur hlutabréfaverð félagsins hækkað um 40% það sem af er þessu ári. Frá því að Amazon var skráð á markað árið 1997 hefur verðmæti fyrirtækisins rúmlega sjöhundruðfaldast. Amazon er því komið í elítu hóp með Apple, Aplpabet og Microsoft en markaðsverðmæti þessara fyrirtækja er einnig yfir 500 milljörðum dollara.