Amazon veitti markaðnum von
Afkoma Amazon á öðrum ársfjórðungi var töluvert betri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir. Netverslunarrisinn skilaði 2,5 milljarða dollara hagnaði og var um helmingi hærri en meðalspá greiningaraðila samkvæmt S&P Global Market Intelligence. Hagnaður félagsins hefur aukist gífurlega á síðustu misserum en hann fór í fyrsta sinn yfir milljarð dollara á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Tekjur félagsins námu 52,9 milljörðum á ársfjórðungnum sem var tæp 40% aukning frá sama fjórðungi í fyrra, og í samræmi við afkomuspá fyrirtækisins, en þær hafa ekki vaxið jafn hratt frá 2011.

Vöxtur í hagnaði Amazon á undanförnum misserum hefur þó ekki verið drifinn áfram af netverslun einni saman. Skýþjónusta fyrirtækisins, Amazon Web Services, hefur vaxið gríðarlega, tekjur þjónustunnar jukust um 49% á síðasta ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra, og námu 6,1 milljarði dollara. Þá nam rekstrarhagnaður þjónustunnar rúmlega 1,6 milljörðum dollara, sem er 84% aukning frá sama tíma í fyrra.

Fjárfestar tóku vel í uppgjör félagsins og hlutabréfaverð hækkaði um tæp 4% daginn eftir uppgjörið þann 26. júlí. Sú hækkun hefur þó gengið til baka síðan, og gengi bréfanna er í dag rúmlega 2% lægra en það var áður en uppgjörið var birt.

Google ber sig vel þrátt fyrir sektir
Alphabet, móðurfélag Google, skilaði nokkuð sterku uppgjöri fyrir annan ársfjórðung. Eiginlegur hagnaður fyrirtækisins nam 8,2 milljörðum dollara á tímabilinu, sem er 32% aukning frá sama tímabili í fyrra, sem skilaði 6,3 milljörðum. Af þeim fóru þó 5 milljarðar í sekt sem samkeppniseftirlit Evrópusambandsins lagði á félagið fyrir samkeppnishamlandi skilmála fyrir notkun Androidfarsímastýrikerfisins, og því var endanlegur hagnaður aðeins 3,2 milljarðar dollara.

Félagið hafði einnig fengið sekt frá sambandinu á sama fjórðungi í fyrra, þá upp á 2,7 milljarða, og endaði því með 3,5 milljarða hagnað þá. Auk sektarinnar var félaginu gert að endurskoða skilmála sína fyrir Android, sem gæti hugsanlega grafið undan ríkjandi stöðu helstu snjallforrita Google. Yfir helmingur allrar netumferðar heimsins samanstendur nú af farsímanotkun, og fjórir af hverjum fimm þeirra nota Android. Það er því mikið í húfi fyrir Google.

Fjárfestar virðast þó ekki hafa of miklar áhyggjur; gengi hlutabréfa félagsins stóð svo til í stað eftir að tilkynnt var um sektina og tilmælin, og hækkaði svo um rúm 6% í kjölfar uppgjörsins, þó að sú hækkun hafi líkt og hjá Amazon að mestu gengið til baka síðan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .