Bandaríska flugfélagið American Airlines, sem er það stærsta í Norður Ameríku hefur ákveðið að hefja flug til Íslands næsta sumar. Mun félagið fljúga beint frá Dallas í Texas til Keflavíkur frá og með 7. júní næstkomandi til og með 27. október og mun verða notuð 176 sæta Boeing 757-200 vél. Áætlaður komutíma á Keflavíkurflugvelli verður klukkan 9:15 að morgni og brottför á ný klukkan 11:10.

Vasu Raja, aðstoðarframkvæmdastjóri áætlunarferða segir nýja áfangastaðinn koma til viðbótar aukinni flugumferð frá Fort Worth flugvelli í Dallas, en félagið hefur einnig hafið flug þaðan beint til Rómar og Amsterdam. „Reykjavík hefur orðið mjög vinsæll áfangastaður skemmtiferða og við hlökkum til að gefa viðskiptavinum okkar tækifæri til að upplifa óvenjulegt landslag hvera, eldfjalla og jarðhitalauga næsta sumar.“

American Airlines flýgur nú um 6.700 flug á hverjum degi til meira en 350 áfangastaða í meira en 50 löndum. Meginflughafnir félagsins eru í Charlotte, Chicago, Forth Worth flugvelli í Dallas, Los Angeles, Miami, New York, Philadelphia, Phoenix og Washington D.C. að því er segir á vef Nasdaq .