Það sáu það tæpast margir fyrir að árið 2017 loguðu götur í smáborg í Suðurríkjum Bandaríkjanna í götubardögum milli nýnazista og andfasista og lögreglan fengi ekkert við ráðið.

Ástandið minnir um sumt á götubardagana í Weimar-lýðveldi Þýskalands fyrir um 90 árum, þar sem nazistar, kommúnistar, sósíaldemókratar og ýmsar fylkingar aðrar tókust á með svipuðum hætti. Ekki sérstaklega til þess að útkljá pólitísk deilumál, heldur til þess að ástunda mannjöfnuð, sýna óbreyttum borgurum hver hefði undirtökin, láta rödd sína heyrast og þagga niður í hinum, vekja ógn og ótta. Líkt og pólitískt ofbeldi sé sjálfsagður eða nauðsynlegur liður stjórnmálabaráttu.

Nú er það auðvitað ekkert nýtt að kynþáttamálin kraumi undir vestanhafs og undanfarna áratugi hafa stjórnmálin þar skautast gríðarmikið. En það að nýnazistar og félagar í Ku Klux Klan þrammi þar um með kyndla og alvæpni, heilsi með Hitlerskveðju og geri átölulaust hróp að fólki fyrir hörundslit eða annan uppruna, á því áttu varla margir von árið 2017.

Nema auðvitað þeir, sem vöruðu við því að lýðskrumarinn Donald Trump höfðaði einmitt til slíkra kennda og gæti hæglega vakið upp slíka drauga fortíðar.

Sinnuleysi stjórnvalda

Augu Bandaríkjanna og umheimsins alls beindust að há- skólabænum Charlottesville um liðna helgi. Bærinn er sambærilegur við Reykjavík þegar nágrannasveitarfélögin eru talin með, um 150.000 manna byggðarkjarni.

Þrátt fyrir að átökin milli ný- nazistanna (sem við skulum bara kalla svo til hægðarauka, þó skipta megi því liði í fleiri fylkingar) og andfasistanna (sem einnig má greina í fleiri hópa og ekki allir lausir við alræðistilhneigingar heldur) hafi aðallega verið pústrar, þá er engin ástæða til þess að gera lítið úr óöldinni, sem náði hámarki þegar einn úr hópi nazistanna ók bíl sínum inn í hóp andstæðinganna og drap unga konu og særði fjölda manns.

Hið versta fyrir fólkið í Charlottesville var vafalaust það að stjórnvöld höfðu ekkert í raun enga stjórn á ástandinu, þau höfðu misst völdin á götum bæjarins og gerðu nær ekkert til þess að ná tökum á þeim á ný og stöðva ofbeldið.

Fyrir flesta Bandaríkjamenn var hitt þó sjálfsagt verra, að Donald Trump Bandaríkjaforseti lét lengst af eins og sér kæmi þetta ekki við og loks þegar hann fékkst til þess að opna munninn um málið (við golfhótel sitt í New Jersey), þá gaf hann til kynna að þarna væru nú bara tvær hliðar á málinu, báðar fylkingar bæru nokkra sök og þar fram eftir götum.

Fyrir þetta uppskar forsetinn gríðarlega gagnrýni, ekki síst í röðum Repúblikanaflokksins, sem hann var í framboði fyrir. Ekki aðeins vegna þessara hálfvolgu orða, heldur vegna þess að Trump hefur löngum sætt gagnrýni fyrir að vilja ekki styggja ýmsa kynþáttahatara, eins og Ku Klux Klan leiðtogann David Duke, sem hafa stutt hann með ráðum og dáð og virðast líta á forsetann sem „sinn mann“.

Að lokum fékkst forsetinn til þess að gefa út ótvíræða yfirlýsingu um atburðina í Charlottesville og þar á meðal að kynþáttahatur yrði aldrei umborið í Bandaríkjunum, nazistar og Klanið væru af hinu illa og svo framvegis. Þau orð komu hins vegar of seint, skaðinn var skeður og forsetinn hefur enn fallið í áliti. Var þó ekki úr háum söðli að detta.

Hver mun svara Trump?

Hugsanlega verður þetta til frekari vakningar innan Repúblikanaflokksins. Þeir hafa meirihluta í þinginu og það er því þeirra að fylla það tómarúm, sem Hvíta húsið skilur eftir sig í þessum efnum, sem svo mörgum öðrum. Enn sem komið er örlar þó lítt á því, þeir virðast ekki þora að bjóða forsetanum byrginn.

Demókratar draga hins vegar ekki af sér í gagnrýninni og líta vonaraugum til þingkosninga á næsta ári. Þeir geta þó varla treyst á að andúðin á Trump og víðtækt ógeð á atburðunum í Charlottesville dugi þeim til sigurs eftir ár. Það var einmitt ámóta andvaraleysi, sem gerði sigur Trumps í forsetakosningunum í fyrra mögulegan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .