Íslandsdeild Amnesti International er ekki mótfallið fullgildingu fríverslunarsamninga milli EFTA ríkjanna og Filippseyja að því er fram kemur í umsögn samtakanna til Alþingis. Leggjast samtökin því ekki gegn fyrirliggjandi stjórnartillögu um að Alþingi álykti að heimila ríkisstjórninni að fullgilda samninginn fyrir Íslands hönd.

Ýmsir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lýst yfir andstöðu við fríverslunarsamkomulagið á þeirri forsendu að stjórnvöld í landinu, undir forystu Roa Duterte forseta, brjóti gegn mannréttindum.

Þúsundir verið drepnir

„Af hverju vill ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar liðka fyrir viðskiptum við morðóða menn,“ spurði til að mynda Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, í þingi.

Vísa samtökin í eigin rannsóknir sem sýni víðtæk mannréttindabrot af hálfu og í nafni stjórnvalda í Filippseyjum, en herferð forsetans gegn eiturlyfjasölum og neytendum hefur leitt til dauða þúsunda borgara sem hafi verið skotnir til bana á götum úti, auk pyndinga og illri meðferð á fólki í nauðungarvist.

„Íslandsdeild Amnesty International skorar á íslensk stjórnvöld, þar á meðal á Alþingi og utanríkismálanefnd hennar, að nýta þau tækifæri sem þeim kunna að gefast til að vekja athygli á versnandi stöðu mannréttindamála á Filippseyjum, að hvetja þarlend stjórnvöld — þar á meðal í tengslum við umræddan fríverslunarsamning og framkvæmd hans — til að gera úrbætur í þeim málum og að leggja öðrum ríkjum lið við að setja slíkan þrýsting á stjórnvöld á Filippseyjum,“ segir í umsögninni.

„Það er eðlilegt að það komi í hlut frjálsra ríkja, þar sem mannréttindi njóta almennrar viðurkenningar, að vera í fararbroddi þeirra sem hvetja ríkisstjórnir sem ekki virða mannréttindi til að ráða á því bót.“