Amnesty International fordæmir ákvörðun ríkisstjórnar Venesúela um að hægt sé að neyða hvern þann sem hafi getu til þess í landinu til að vinna á ökrum landsins til matvælaframleiðslu.

Missa algerlega sjónar á aðalvandamálinu

„Að ætla sér að reyna að berjast gegn gríðarlegum matarskorti í Venesúela með því að neyða fólk til að vinna er eins og að ætla að laga fótbrot með plástri,“ sagði Erika Guevara Rosas, forstöðumaður fyrir Ameríku hjá Amnesty International.

„Nýju reglurnar missa algerlega sjónar á aðalvandamálinu við að reyna að finna lausnir fyrir Venesúela til að draga sig upp úr þeirri miklu krísu sem landið hefur verið sökkt í nú árum saman.“

Neyddir til að vinna í 60 daga eða lengur

Nýju reglurnar, sem birtar voru opinberlega fyrr í vikunni, fela í sér að þeir sem starfa hjá opinbera og einkageiranum geti verið neyddir til að ganga til liðs við fyrirtæki sem studd eru af ríkinu sem sérhæfi sig í matvælaframleiðslu.

Geti starfsmennirnir verið neyddir til að vinna fyrir nýju fyrirtækin tímabundið í allt að 60 daga, en eftir það geti tímabilið annað hvort verið framlengt um annað 60 daga tímabil eða þeim leyft að snúa aftur í sín fyrri störf.