Stjórn spænska risabankans Banco Santander hefur valið að Ana Patricía Botín taki sæti stjórnarformanns bankans. Hún er dóttir Emilio Botín, fyrrverandi stjórnarformanns og bankastjóra Groupo Santander, sem lést í gær. Hann var 79 ára. Ana Patricia Botín er 53 ára og hefur síðastliðin 26 ár unnið hjá Santander en þar hóf hún störf árið 1988. Síðastlðin fjögur ár hefur hún stýrt Santander-bankanum í Bretlandi. Hún mun í kjölfarið segja stöðu sinni lausri í Bretlandi.

Ana er elst sex barna Emilio Botín og á hún þrjú börn.

Santander er annar stærsti banki Evrópu ef mið er tekið af markaðsvirði hans. Hann er með rekstur á Spáni og Bretlandi, í Brasilíu, Bandaríkjunum og Póllandi.

Botín-fjölskyldan hefur stýrt Santander síðan árið 1895 og á hún 2% hlut í banka-samstæðunni. Bloomberg-fréttaveitan fjallar um breytinguna á högum Önu Patriciu Botín og segir hana nú orðna valdamestu konuna í fjármálaheimi Evrópu.