*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Fjölmiðlapistlar 19. september 2016 14:05

Andleysi í þingsal

Það er erfitt að segja hvaða ályktun eigi að draga af þeirri stað­reynd að svo fáir stjórnarandstæðingar hafi látið ljós sitt skína í atkvæðagreislu um breytingar á búvörulögum.

Ásdís Auðunsdóttir

Atkvæðagreiðsla á Alþingi um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum komu eins og þruma úr heiðskíru loft í byrjun vikunnar. Kærkomin hvíld fyrir þá sem vildu losna undan umræðum um Vigdísi Hauks og „Skýrsluna“ en reiðarslag fyrir andstæðinga laganna. Þrátt fyrir að öll umgjörð málsins sé hápólitísk og lögin umdeild ákváðu 16 þingmenn að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna og 21 þingmaður sá sér hreinlega ekki fært að mæta. 

Það blasir við að málið er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að senn líður að kosningum og það má vera nánast öruggt að flokkarnir munu þurfa að réttlæta hvers vegna svo fáir sáu ástæðu til þess að taka afstöðu í máli sem lítur að jafn gríðarlegum hagsmunum og raun ber vitni. Eftir að reiðiöldur samfélagsins flæddu yfir fjölmiðla og samfélagsmiðla og fyrirferðarmiklir einstaklingar hvöttu jafnvel til þess að fólk sniðgengi stjórnarandstöðuflokkana, hafa nokkrir stjórnmálamenn ákveðið að snúa strax vörn í sókn og boðið upp á ýmsar ráðleggingar sem og tillögur um úrbætur. Þannig bar Helgi Hrafn því við að það væri stefna Pírata að sitja hjá í málum þar sem flokkurinn hafi ekki aðalmann í nefndum. Stefna sem að mínu mati gefur til kynna alvarlega galla í starfsemi þingsins. Þá fór Ólína Þorvarðardóttir í pontu í dag þar sem hún sagði lýðræðisbrest hafa orðið við kosninguna. Hún var hins vegar sjálf fjarstödd líkt og aðrir úr röðum Samfylkingarinnar sem ýmist sátu hjá eða létu sig vanta og því erfitt að leggja fullan trúnað á hugsjónina sem býr að baki yfirlýsingunni.

Það er erfitt að segja hvaða ályktun maður á að draga af þeirri stað­ reynd að svo fáir stjórnarandstæðingar hafi látið ljós sitt skína í umræddri atkvæðagreiðslu. Ef til vill er andleysið til marks um einhvers konar samþykkt vinnubrögð og siði á þingi sem við börnin sem stöndum utan skiljum ekki að fullu. Kannski var stjórnarandstaðan bara ekki í stuði þennan dag (eins og ef til vill ýmsa aðra daga). Hvað sem olli þessu þá sendi atkvæðagreiðslan ekki þau skilaboð til kjósenda að þingmenn starfi af brennandi hugsjón þegar kemur að framtíð íslensks landbúnaðar. Hjá forseta vorum, herra Guðna Th. Jóhannessyni, fara hlutirnir nú hins vegar fyrst að verða áhugaverð­ ir þar sem 1.200 manns höfðu undirritað áskorun þess efnis að hann synjaði lögunum undirritunar, þegar þessi grein er skrifuð. Hann er varla öfundsverður af þeirri ákvörðun sem bíður hans þegar listinn (eflaust langur enda ekki krefjandi að fá útrás fyrir reiði sinni á „Sign-takkanum“) kemur til með að berast honum í hendur á komandi dögum.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim