Samkeppniseftirlitið mun ekki heimila kaup Haga á Olís nema að fyrirtækin séu tilbúin að undirgangast frekari skilyrði. Í tilkynningu frá Högum sem send inn var til Kauphallar Íslands kemur fram að frummat Samkeppniseftirlitsins á nýjum skilyrðum fyrirtækjanna vegna kaupanna nægi ekki til að leysa úr öllum þeim samkeppnislegu vandamálum sem annars leiði af samrunanum. Þykir Samkeppniseftirlitinu því ekki unnt að fallast á framkomna tillögu félagsins að sátt vegna málsins.

Hagar afturkölluðu samrunatilkynningu vegna samruna fyrirtækisins og Olís þann 8. mars, þegar ljóst var að Samkeppniseftirlitið væri í þann mund að hafna samrunanum.

Hagar vinna nú að því að koma athugasemdum við frummatið á framfæri og eftir atvikum veita Samkeppniseftirlitinu frekari upplýsingar með það að markmiði að ná sátt um samrunann. Málinu getur því enn lokið með setningu skilyrða fyrir samrunanum eða ógildingu hans.

Kaupsamningurinn er háður fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, gagnvart öllum framboðnum skilyrðum, og því verður ekki gengið frá viðskiptunum fyrr en afstaða Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir.