Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir að aukning á útgjöldum erlendra ferðamanna vegna virðisaukaskattshækkana á ferðaþjónustuna sé mun lægri en verðhækkun ferðaþjónustunnar í fyrra. Þetta kom fram í Silfrinu á Rúv fyrir hádegi í dag.

Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar andmælti þeim rökum Benedikts að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna væri stýritæki til að dempa vöxt erlendra ferðamanna á Íslandi. Sagði Helga að samtök ferðaþjónustunnar teldu að hækkun virðisaukaskatts væri ekki hentugt stýritæki til þess að draga úr vexti á komu erlendra ferðamanna til landsins.

Hún spurði hvaða greiningar lægju að baki ákvörðun ríkisstjórnarinnar og spurði hvort þörf væri á að dempa vöxtinn á landsbyggðinni. Einnig spurði hún hvort þörf væri á því að minnka vöxtinn yfir vetrartímann.

Fjármálaráðherra svaraði því til að á síðasta ári hafi verðbólga á Íslandi verið eitt og hálft prósent en verðlag í ferðaþjónustu hafi hækkað um ellefu prósent. Þrátt fyrir það hafi ferðamönnum fjölgað um tæplega 40 prósent á síðasta ári. Bætti Benedikt við að virðisaukaskattshækkunin myndi auka kostnað ferðamanna um fjögur til fimm prósent.