Nýir liðsmenn, sem munu leiða tæknisvið Hörpu og markaðs- og samskiptamál, bætast nú í hóp starfsmanna Hörpu samhliða nýrri stefnu hjá rekstraraðilum tónlistar- og ráðstefnuhúsins.

  • Andri Guðmundsson

Andri hefur verið ráðinn nýr tæknistjóri Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss.  Starfið var auglýst í lok janúar og var Andri valinn úr góðum hópi umsækjenda. Andri er rafeindavirki með CCNA gráðu í netkerfum frá CISCO. Hann hefur yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á tækni og framkvæmd viðburða jafnt hér á landi sem erlendis eftir að hafa verið tæknistjóri í Austurbæjarbíói, tæknimaður hjá Exton, tæknimaður og verkefnastjóri hjá Peachy Production í Bretlandi, eigandi Metis Production og verkefnastjóri í Hörpu.  Andri kemur til Hörpu frá Origo þar sem hann starfaði sem netsérfræðingur.

Harpa hefur verið að móta nýja stefnu og framtíðarsýn á síðustu 12 mánuðum og mun Andri taka ríkan þátt í að útfæra áherslur stefnumótunarinnar en þær lúta m.a. að straumlínulögun á viðburða- og upplýsingatæknikerfum, þjónustu og ferlum á tæknisviði Hörpu.

  • Ragnar Fjalar Sævarsson

Ragnar hefur verið ráðinn nýr markaðs- og samskiptastjóri Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss. Starfið var auglýst í byrjun mars og var Ragnar valinn úr sterkum hópi umsækjenda. Ragnar er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands en hélt eftir það til frekara náms í Svíþjóð. Hann lauk meistaranámi í alþjóðamarkaðsfræðum og annarri meistaragráðu í nýsköpun og frumkvöðlafræðum frá Háskólanum í Lundi þaðan sem hann útskrifaðist með hæstu einkunn.

Ragnar býr yfir mikilli þekkingu og reynslu af markaðsmálum bæði hér heima og erlendis. Hann hefur einnig um langt skeið starfað við nýsköpun og alþjóðlega markaðssókn í Svíþjóð en hefur síðustu misseri leitt viðskiptaþróun og nýsköpunarverkefni í samstarfi við Kolibri og Tryggingamiðstöðina.

Harpa hefur verið að móta nýja stefnu og framtíðarsýn og mun Ragnar taka ríkan þátt í að útfæra markaðslegar áherslur hennar sem eru m.a. á sókn í viðskiptaþróun, stafræna miðlun, notendamiðaða þjónustu og jákvæða ímynd Hörpu sem sterkt alþjóðlegt vörumerki.

Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri segir góða hluti vera að gerast í Hörpu. ,,Það er mikil fengur að því að fá þessa tvo öflugu menn til liðs við okkur í Hörpu og spennandi tímar fram undan sem þeir munu taka þátt í að móta,“ segir Svanhildur

Harpa hefur á umliðnum mánuðum verið að vinna nýja stefnu og framtíðarsýn í samstarfi við breiðan hóp notenda hússins, fulltrúa eigenda og annarra hagsmunaaðila að því er segir í fréttatilkynningu.