Andri Þór Guðmundsson, stjórnarmaður í Tryggingamiðstöðinni hefur keypt 58.593 hluti í félaginu, á 32,65 krónur hvern hlut. Er þá kaupverðið rétt tæplega tvær milljónir króna eða 1.924.815 krónur en hann átti ekki hlut í félaginu fyrir kaupin.

Andri Þór var skipaður í stjórn TM í ágúst 2013, en hann hefur verið forstjóri Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar ehf. frá árinu 2004 að því er segir á heimasíðu fyrirtækisins .

Andri er með cand. oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og lauk árið 2002 MBA-prófi frá Rotterdam School of Management. Andri situr í stjórn Mjallar-Friggjar ehf., Sólar ehf. og Viðskiptaráðs.

Hann er einnig í stjórn OA eignarhaldsfélags ehf., Ofanleiti 1 ehf. og Verzlunarskóla Íslands ses. Hlutafjáreign í félaginu er engin. Engin hagsmunatengsl eru við stærstu viðskiptaaðila eða samkeppnisaðila. Andri er fæddur árið 1966.