Andri Valur Ívarsson, lögfræðingur hdl., hefur verið ráðinn lögmaður Bandalags háskólamanna (BHM). Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá BHM. Hann er fæddur árið 1980 og lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 en hefur einnig lokið bakkalárprófi í hagfræði frá sama skóla. Hann hefur verið lögfræðingur og hagfræðingur Þjónustuskrifstofu FFSS frá árinu 2015 en starfaði áður m.a. hjá Umboðsmanni skuldara og Þekkingarneti Þingeyinga á Húsavík.

Sem lögmaður BHM mun Andri m.a. sinna ráðgjöf um lögfræðileg efni til bandalagsins og aðildarfélaga þess og annast túlkun kjarasamninga, laga og reglna er varða vinnuréttar- og stjórnsýslumál. Þá mun hann sinna úrlausn einstaklingsmála félagsmanna aðildarfélaganna, fræðslu um lögfræðileg málefni og sitja sem fulltrúi bandalagsins í ýmsum nefndum um vinnumarkaðstengd málefni. Andri tekur við starfinu af Ernu Guðmundsdóttur sem nýlega var ráðin framkvæmdastjóri BHM.