Angus Deaton, hagfræðingur við Princeton-háskóla, hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár. Þetta var tilkynnt fyrir skemmstu.

Í fréttatilkynningu frá sænsku Nóbelsakademíunni segir að Deaton hafi bætt skilning hagfræðinnar á velferð og fátækt með því að skýra betur hvernig einstaklingar taki ákvörðun um neyslu sína. Deaton er sagður hafa umbreytt skilningi þjóðhagfræðinnar, rekstrarhagfræðinnar og þróunarhagfræði með því að tengja val einstaklinga við heildarniðurstöður.

Þær rannsóknir Deatons sem hann er sagður hljóta verðlaunin fyrir snúast um þrjú atriði. Í fyrsta lagi er hann sagður hafa skýrt betur hvernig einstaklingar ákveða hvaða hluta tekna sinna þeir verja í neyslu einstakra vöruflokka. Í öðru lagi er hann sagður hafa bætt skilning á hagsveiflum með því að sýna að það er nauðsynlegt að taka tillit til tekna einstakra aðila, en ekki aðeins heildartekna í samfélaginu, til að skilja sambandið milli tekna og neyslu.

Í þriðja lagi er Deaton sagður hafa bætt það hvernig fátækt og velferð er mæld og útskýrð. Hann er sagður hafa leiðrétt ýmsan útbreiddan misskilning í því efni og hafa þróað snjallar aðferðir við að nota neyslugögn til að mæla þætti á borð við kynjamismunun og matarneyslu. Með þessum rannsóknum sínum er Deaton sagður hafa umbylt þróunarhagfræðinni.