Þann 1. febrúar tók Anna Björk Bjarnadóttir við starfi framkvæmdastjóra hjá ráðgjafarfyrirtækinu Expectus af Ragnari Þóri Guðgeirssyni sem verður stjórnarformaður félagsins.

Áður starfaði Anna Björk m.a. hjá TDC í Noregi um tíma og alls í átta ár hjá Símanum og þar af fimm ár í framkvæmdastjórn. Anna hefur starfað við ráðgjöf hjá Expectus síðan 2013 en síðasta árið hefur hún einnig verið framkvæmdastjóri dótturfélags Expectus sem framleiðir hugbúnaðinn exMon. Nú tekur hún við stjórn Expectus í heild.

„Þetta nýja hlutverk leggst vel í mig. Sá öflugi hópur sérfræðinga sem stendur að félaginu hefur á þeim sjö árum sem liðin eru frá stofnun, gert Expectus að leiðandi fyrirtæki á þeim sviðum sem félagið starfar á íslenskum ráðgjafar- og tæknimarkaði,” er haft eftir Önnu í fréttatilkynningu.

„Velta og afkoma félagsins hefur vaxið jafnt og þétt og lausnir þess eru farnar að vekja athygli utan Íslands. Það er heiður að vera treyst til að taka við slíku búi og ég hlakka til að vinna með frábærum hópi að enn frekari uppbyggingu.“ segir hún enn fremur.