Anna Kristjánsdóttir hefur tekið við starfi forstöðumanns skuldabréfa hjá sjóðstýringarfyrirtækinu Stefni, dótturfélagi Arion banka. Hún tekur við af Jóni Finnbogasyni, sem hefur tekið við nýju starfi forstöðumanns lánaumsýslu hjá Arion banka. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stefni þann 15. maí síðastliðinn.

Anna hefur starfað við stýringu skuldabréfa frá árinu 2002 þegar hún hóf störf hjá Búnaðarbankanum Verðbréfum. Hún hefur því starfað hjá Stefni og forverum í fimmtán ár. Í tilkynningu Stefnis segir að Anna sé einn reynslumesti skuldabréfasérfræðingur landsins.

Anna er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Í sumar mun hún útskrifast með meistaragráðu í fjármálum frá Háskóla Íslands.

Skuldabréfateymi Stefnis stýrir fjölbreyttu úrvali sjóða sem samanlagt eru yfir 230 milljarðar að stærð. Um er að ræða opna sjóði sem seldir eru til almennings og fyrirtækja sem og sérhæfða fagfjárfestasjóði.