Búist er við því að hlutabréfamarkaðir í Asíu bregðist neikvætt við afkomuviðvörun frá Nintendo við opnun markaða á mánudag, en bréfin eru skráð í kauphöllum Tokyo og Osaka í Japan.  Verð á bréfum Nintendo í Bandaríkjunum lækkaði um 18% síðastliðinn föstudag í viðskiptum með bréfin utan kauphallar. Financial Times fjallar um málið í dag.

Leikjatölvufyrirtækið Nintendo tilkynnti á föstudaginn var að dræm sala yfir hátíðirnar hafi breytt spá fyrirtækisins um 530 milljón dollara hagnað á síðasta ári. Stefnir nú í 240 milljóna dollara tap hjá fyrirtækinu.

Tilkynning um tapár hjá félaginu kemur aðeins tveimur árum eftir að fyrirtækið lýsti því yfir í byrjun árs 2012 að árið 2011 hafi verið fyrsta tapárið í 50 ára sögu Nintendo. Var þá talið að Wii leikjatölvan myndi snúa blaðinu við hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið seldi aðeins um 2,8 milljónir Wii tölvur á síðasta ári, en hafði gert ráð fyrir að selja 9 milljónir. Vb.is fjallaði um dræma sölu á Wii tölvum Nintendo á föstudaginn var.

Léleg sala hjá Nintendo á síðustu árum er talin tengjast auknum umsvifum leikjaframleiðenda á farsíma- og spjaldtölvumarkaðinum. Almenningur kjósi frekar að spila tölvuleiki í símum eða á spjaldtölvum í stað þess að fjárfesta í sérstökum leikjatölvum.