Bandaríski tæknirisinn Apple hefur litlar áhyggjur af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þetta kemur fram á vef BBC, en haft er eftir Tim Cook forstjóra félagsins.

Cook hitti Theresu May á Downing Street og ræddi meðal annars um uppbyggingu nýrra höfuðstöðva fyrir bretlandsmarkað og um framtíði fyrirtækisins innan Bretlands eftir útgöngu úr Evrópusambandinu.

Tim Cook sagði Apple hafa mikla trú á Bretlandi og taldi allt verða í fínasta lagi. Hann neitaði því þó ekki að útgangan gæti tekið sinn toll á samfélagið.

Alls starfa um 300.000 einstaklingar fyrir Apple í Bretlandi. Nýju bresku höfuðstöðvar fyrirtækisins munu rísa við Battersea Power Station og munu um 1.600 einstaklingar starfa þar.